Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Brýnt að meðlagsgreiðslur verði í samræmi við umgengni

09.11.2020 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Mikilvægt er að löggjöf um meðlagsgreiðslur verði löguð að breyttum aðstæðum. Þetta sagði Dögg Pálsdóttir, stundakennari við Háskólann í Reykjavík, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Dögg segir að það sé undarlegt að þetta hafi ekki verið gert enda sé nú algengt að foreldrar hafi jafna umgengni við börnin. Iðulega tíðkist að börn séu viku til skiptis hjá hvoru foreldri. Hér á landi sé enginn munur á meðlagi eftir því hvort umgengnisforeldri sinnir barni sínu mikið eða jafnvel ekkert.

Engin sanngirni segir Dögg að sé í því að foreldri greiði meðlag með þeim hætti sem nú er gert þegar barnið dvelji mikið hjá því. Í nágrannalöndununum, þar á meðal annars staðar á Norðurlöndunum, taki löggjöfin tillit til þessa.

Ísland sitji eitt eftir og það sæti furðu að löggjafinn og stjórnvöld hafi ekki breytt meðlagsreglunum þannig að þær endurspegli umfang umgengninnar. 

Dögg segir að reglur um meðlagsgreiðslur séu aftan úr fornöld og löggjafinn hafi hreinlega brugðist með því að breyta reglum ekki til samræmis við það sem tíðkist milli foreldra.

Engin sanngirni sé fólgin í því að umgengnisforeldri skuli eiga að borga meðlag með þeim hætti sem nú er, með aukinni umgengni ætti meðlagið að lækka. Nú borgi allir jafnt meðlag hvort sem umgengnin er engin eða mjög mikil. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV