Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Miklar breytingar í Laxá - stöngum fækkað um þriðjung

08.11.2020 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: Laxárfélagið í Aðaldal
Miklar breytingar verða gerðar á skipulagi laxveiða í Laxá í Aðaldal frá og með næsta veiðitímabili. Þriðjungi færri stangir verða leyfðar í ánni en hingað til og þá geta veiðimenn veitt í allri ánni í sama veiðitúrnum.

Fyrr á þessu ári keyptu landeigendur á Laxamýri allar eignir Laxárfélagsins sem hefur haft Laxá í Aðaldal á leigu í áttatíu ár. Í kjölfarið hafa ýmsar breytingar á fyrirkomulagi veiða í ánni verið ákveðnar.

Selja alla ána sem eina heild og fækka stöngum

,,Það er ætlunin á næsta ári að selja eiginlega alla ána sem eina heild. Og samhliða þessu þá munum við fækka stöngum um fimm og veiða á færri stangir," segir Jón Helgi Björnsson, formaður Veiðifélags Laxár í Aðaldal. Þetta þýðir að um 30 prósent færri stangir verða leyfðar í ánni en áður og ekki hefur verið hægt að veiða í allri ánni í sömu veiðiferð í sjötíu ár.

Minnka veiðiálagið og leggja meiri áherslu á upplifun

,,Ég geld nú að hluta sé það einfaldlega það að veiðin hefur verið minni undanfarin ár, heldu en var áður. Þannig að þetta eru að einhverum hluta viðbrögð við því. Og svo eru menn bara að selja upplifun. Og hún skiptir svolitlu máli og að menn hafi sitt pláss við það." Hann segir að þetta form sé að ryðja sér til rúms í fleiri laxveiðiám. Menn vilji minnka veiðiálagið og leggja meiri áherslu á upplifun en aðferðir til að skila hámarks afla.

Bændur sjálfir að taka málin í eigin hendur

Jón Helgi segir að nú þegar veiðifélag Laxár taki við rekstri árinnar séu bændur eiginlega að taka reksturinn í eigin hendur. ,,Það hefur líka verið siður í Laxá að bændur veiða almennt. Og við megum búast við því að langflestir leiðsögumenn við ána verði þeir sem búa við ána. Þannig að við erum svolítið að taka þessi mál í okkar eigin hendur."