Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Maður getur ekki verið algjörlega með Benedikt í liði“

Mynd: RÚV / RÚV

„Maður getur ekki verið algjörlega með Benedikt í liði“

08.11.2020 - 11:48

Höfundar

Lokaþáttur Ráðherrans er á dagskrá á RÚV í kvöld og þá fá áhorfendur loksins að sjá hvernig fer fyrir forsætisráðherranum sem var kominn í afar sérkennilegar aðstæður þegar við sáum hann síðast. Hinn ofureinlægi og réttsýni Benedikt, sem leikinn er af Ólafi Darra, leggur í byrjun þáttaraðar upp með að bæta heiminn en gengur illa. Hann glímir við geðhvörf, kemst í mikla maníu og tekst að hrista upp í pólitíkinni og einkalífinu.

Ólafur Darri var gestur Gísla Marteins í Vikunni á föstudag ásamt þeim Þóru Karítas Árnadóttur leikkonu og rithöfundi, Huldu Þórisdóttur dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og meðleikurum sínum í Ráðherranum þeim Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Þuríði Blævi Jóhannsdóttur.

„Hvílíkur leiksigur Darri“

Ólafur kveðst virkilega ánægður með viðtökurnar sem þættirnir hafa fengið hjá landsmönnum en þeir hafa líka hlotið viðurkenningar utan landsteinanna. Þáttaröðin var meðal annars tilnefnd til Venice TV Award sem veitt voru í Feneyjum fyrir framúrskarandi sjónvarpsefni á árinu. Hún hefur verið seld til sýninga í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada og Suður-Evrópu og var auk þess á meðal sjö þáttaraða sem tilnefndar eru til evrópsku ljósvakaverðlaunanna, Prix Europa, í ár. Þóra Karítas Árnadóttir leikkona og rithöfundur hrósar Ólafi sérstaklega fyrir túlkun sína á Benedikt. „Hvílíkur leiksigur Darri. Þú ferð alveg í kvikuna og það er unun að sjá svona góðan leik,“ segir hún.

Líkt og Donald Trump hlustar Benedikt ekki á aðra en sjálfan sig

Sjálfur segir Ólafur að það hafi ekki verið sérstök áskorun að leika pólitíkus en hann hrósar handritshöfundunum fyrir að skapa hann ekki sem einsleitan karakter sem allir muni halda með. „Mér fannst mikilvægt að maður gæti ekki verið bara algjörlega með honum í liði, og maður getur það ekki,“ segir Ólafur. Benedikt gengur upprunalega gott eitt til en gengur allt of langt í að gera hlutina upp á eigin spýtur og hlustar ekki á aðra. „Að hluta til út af geðsjúkdómnum langar hann að breyta heiminum en hann ákveður bara að gera það einn ef aðrir vilja ekki vera með. Það má ekki gerast.“

Ólafur ber viðbrögð Benedikts við mótlætinu saman við viðbrögð Donalds Trumps, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, sem neitar að viðurkenna ósigur í kosningunum. „Þetta er akkúrat það sem er að gerast úti í hinum stóra heimi þar sem einn maður vill ekki flytja úr húsi sem hann á ekki lengur heima í.“

Geðsjúkdómar oftast þöglir

Hulda Þórisdóttir er sálfræðimenntuð og einn helsti sérfræðingur Íslendinga í bandarískri pólitík. Hún segir Benedikt, ólíkt ýmsum úti í heimi, vera einlægan og með hjartað í pólitíkinni. „Mér finnst frábært hvernig þú túlkar hvernig geðveikin er að koma fram,“ segir hún.

Hún bendir þó á að oftast séu geðsjúkdómar ekki eins sýnilegir hjá fólki og í tilfelli Benedikts. „Maður verður að hafa hugfast að geðsjúkdómar eru oftast þöglir. Fólk þjáist oftast í þögn af kvíða og þunglyndi en sinnir sínu starfi með hjartað á réttum stað,“ segir Hulda. Í tilfelli forsætisráðherrans fari hins vegar ekki á milli mála að hann er að missa tökin. „Karakterinn vill vel þó hann sé búinn að missa veruleikatengslin,“ segir hún.

Auk Ólafs Darra Ólafssonar fara Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson með stór hlutverk í þáttunum. Auk þess má sjá Hollywoodleikarana Ben Stiller og Rainn Wilson úr The Office í aukahlutverkum. Leikstjórn er í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarsonar en handrit skrifuðu Birkir Blær Ingólfsson, Björg Magnúsdóttir og Jónas Margeir Ingólfsson.

Áttundi og síðasti þáttur Ráðherrans er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:25. Hér er hægt að horfa á eldri þætti í spilara RÚV fyrir þá sem vilja rifja upp það sem gerst hefur hingað til.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Áhugaverðar staðreyndir Ráðherrans

Sjónvarp

4 atriði í Ráðherranum sem gátu orðið kynlífsatriði

Sjónvarp

Ben Stiller í óvæntu gestahlutverki í Ráðherranum