Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Kannski er ég sú fyrsta. En ég verð ekki sú síðasta“

epa08806525 Vice President-elect Kamala Harris speaks to supporters at a celebratory event held outside of the Chase Center in Wilmington, Delaware, USA, 07 November 2020. According to media reports, Biden has defeated President Donald Trump in the 2020 USA presidential election to become the United Sates' 46th president.  EPA-EFE/ANDREW HARNIK / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
„Kannski er ég sú fyrsta. En ég verð ekki sú síðasta.“ Þetta sagði Kamala Harris, nýkjörinn varaforseti Bandaríkjanna í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í nótt. Og með þessum orðum sínum vísaði hún til þess að kjör hennar brýtur ýmis blöð í bandarískum stjórnmálum.

Hún er ekki eingöngu fyrsta konan sem nær kjöri sem varaforseti Bandaríkjanna, hún er einnig fyrsti svarti bandaríkjamaðurinn og sá fyrsti af suður-asískum uppruna til þess.

Hún er reyndar ekki fyrsta konan  í framboði sem varaforseti fyrir annanhvorn af tveimur stóru flokkunum í Bandaríkjunum. Demókratinn Geraldine Ferraro var varaforsetaefni Walters Mondale í forsetakosningunum 1984 og  repúblikaninn Sarah Palin var varaforsetaefni Johns McCains árið 2008. Og svo var Hillary Clinton forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins fyrir fjórum árum.

„Hver einasta stúlka, sem er að horfa á, sér að þetta er land tækifæranna,“ sagði Harris í ávarpi sínu í gær sem var sjónvarpað um allan heim. „Og stjórnvöld hafa sent börnunum í landinu skýr skilaboð, burtséð frá kyni þeirra. Látið ykkur dreyma metnaðarfulla drauma, sækið fram af sannfæringu og mátið ykkur í hlutverkum sem aðrir sjá ykkur kannski ekki í einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki séð slíkt áður. Og við munum hvetja ykkur áfram við hvert einasta skref,“ sagði Harris.

En hver er hún, þessi kona sem talar svona full eldmóðs og hvatningar?

Foreldrarnir bæði innflytjendur

Kamala Harris fæddist 20. október 1964 í Oakland í Kaliforníu. Móðir hennar, Shyamala Gopalan, var 19 ára þegar hún flutti til Bandaríkjanna frá Indlandi. Hún er doktor í líffræði og vann meðal annars við rannsóknir við Berkeley háskóla í Kaliforníu. Faðir hennar, Donald J. Harris, fluttist til Bandaríkjanna frá Jamaíka árið 1961, hann er hagfræðingur frá Berkeley og var prófessor við skólann.

Kamala á eina systur, Mayu sem er þremur árum yngri og starfar sem lögmaður og stjórnmálaskýrandi á MSNBC. Fjölskyldan bjó í Berkeley í Kaliforníu og þegar Kamala hóf skólagöngu var henni ekið með skólabíl í skóla í öðru hverfi þar sem meirihluti nemenda var hvítur. Það var hluti af áætlun stjórnvalda um að skólabörn af ólíkum kynþáttum myndu blandast.

Hvítu börnin máttu ekki leika við systurnar

Shyamala og Donald skildu þegar Kamala var sjö ára og hún hefur sagt frá því í viðtölum að faðir hennar hafi þá flutt í hverfi þar sem meirihluti íbúa var hvítir. Börnin í hverfinu máttu ekki leika við þær systur því þær voru svartar. Þegar hún var 12 ára fluttu systurnar með móður sinni til Montreal í Kanada þar sem Shyamala starfaði við rannsóknir.

Harris lauk námi í stjórnmálafræði og hagfræði frá Howard háskóla í Washington DC og starfaði jafnframt því fyrir öldungardeildarþingmanninn Alan Cranston. Hún hóf síðan laganám við Kaliforníuháskóla og útskrifaðist þaðan 1989.

Ríkissaksóknari í Kaliforníu

Hún starfaði við saksóknaraembættið í Kaliforníu og varð yfirsaksóknari í San Fransico og síðan ríkissaksóknari í Kaliforníu árið 2011. Því embætti gegndi hún til 2017, en þá var hún kjörin öldungardeildarþingmaður. Við það tækifæri hét hún því að tala máli innflytjenda og berjast gegn útlendingastefnu stjórnar Donalds Trump.

Fljótlega eftir að Harris var kjörin í öldungadeildina var farið að tala um hana sem vonarstjörnu í Demókrataflokknum og harðar atlögur hennar að Brett Kavanaugh, umdeildu hæstaréttardómaraefni Donalds Trump sem síðar var skipaður í hæstaréttinn, vöktu athygli. Árið 2018 var hún til dæmis spurð hvort hún hefði hug á að fara í forsetaframboð og svaraði þá að hún útilokaði það ekki.

Þessi litla stúlka var ég

21. janúar í fyrra tilkynnti Kamala Harris um framboð sitt til útnefningar forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins og í fyrstu kappræðum frambjóðenda skammaði hún Biden fyrir ummæli sem hann hafði látið falla um blöndun kynþátta í grunnskólum, en hann hafði verið mótfallin því á sínum tíma. „Ég var eitt af þessum börnum. Þessi litla stúlka var ég,“ sagði Harris við Biden.

Hún naut talsverðs fylgis í upphafi baráttunnar, en það fór minnkandi og í byrjun desember í fyrra dró hún sig út úr slagnum og lýsti síðan yfir stuðningi við Biden. 11. ágúst var tilkynnt að hún yrði varaforsetaefni Demókrataflokksins.

Hvað á að kalla karlinn?

Kamala Harris er gift lögfræðingnum Douglas Emhoff. Þar er reyndar enn eitt blaðið brotið því hann er fyrsti maki forseta eða varaforseta sem er af gyðingaættum. Þau eiga ekki börn samna, en hann á tvö börn af fyrra hjónabandi.

Fjölmiðlar vestanhafs velta nú fyrir sér hvaða titil Emhoff eigi að bera, verandi fyrsti karlkyns maki varaforseta. „Second lady“ hefur verið notað um varaforsetafrúr fram að þessu og lagt hefur verið til að „Second gentleman“ verði notað um Emhoff. 

Líklega er tímabært að finna viðeigandi titil fyrir karlkyns maka forseta og varaforseta, því  gangi orð Kamölu Harris eftir verður Emhoff fyrsti karlinn af mörgum í hlutverki forsetamaka.