Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Eðlileg krafa að í Baldri sé varavél

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Bæjarstjórinn í Vesturbyggð segir að það sé áhyggjuefni að engin varavél sé í Breiðafjarðarferjunni Baldri. Það hafi vakið óhug með íbúum þegar ferjan varð vélarvana úti á Breiðafirði í sumar.

Þegar Baldur bilaði þurfti að toga hann í land. Hann lá bilaður við bryggju í tólf daga. Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir atvikið í sumar hafa vakið óhug með íbúunum. Engin varavél er í Baldri og Vegagerðin gerir ekki kröfu um það. 

„Við erum að sigla með þessari ferju allt árið um kring og margir hér hafa velt því fyrir sér hvaða aðstæður hefðu getað skapast ef þetta komið upp um hávegur, í miklum sjó og svo framvegis. Þá hefðum við mögulega séð mun alvarlegra tilvik en í sumar,“ segir Rebekka. 

Vill tvær vélar til að grípa inn í

Ferjan er á stundum eina leiðin á milli sunnanverðra Vestfjarða og annarra landshluta á vetrum þegar Dynjandisheiði og Klettsháls eru óvær. Þá treysta einnig mörg fyrirtæki á Baldur til vöruflutninga. 

„Það er eðlileg krafa hér þar sem þú ert að sigla í kringum öll þessi sker í hinum friðaða Breiðafirði, með íbúa og afurðir, að það séu tvær vélar til að grípa inn í ef eitthvað gerist.“

Engin áform um að setja kröfu um varavél

Vegagerðin styrkir rekstur fimm ferja víðs vegar um landið og gerir þá kröfu til rekstraraðila ferjanna að farið sé eftir alþjóðlegum og íslenskum lögum og reglum. Þar er ekki farið fram á varavél og samkvæmt Vegagerðinni eru engin áform um að setja sérstakar aukareglur til að breyta því.