Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Börn í Fossvogsskóla veikjast vegna myglu

Mynd: Skjáskot / Já.is
Að minnsta kosti sex börn í Fossvogsskóla sýna einkenni vegna myglu í Fossvogsskóla þrátt fyrir miklar viðgerðir á húsinu til að uppræta myglu.

„Börnin halda áfram að veikjast, það er alveg staðreynd. Og veikindin lýsa sér með ýmsum slæmum líkamlegum hætti, blóðnösum, uppköstum, höfuðverkjum, útbroddum um líkamann. Þessu fylgir líka mikil andleg vanlíðan og kvíði, ekki síst þeim yngri sem finnst þau á einhvern hátt mögulega bera ábyrgð á að þeim líði svona sem er mjög slæmt og ekki líðandi á nokkurn hátt.“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla og fulltrúi foreldra í skólaráði.

Hann segir að minnst  sex börn hafi veikst eftir að viðgerðum lauk. Framkvæmdir við skólann hafa kostað yfir hundrað milljónir.  Í lokaskýrslu Verkís um framkvæmdirnar kemur fram að talið er að hættuleg mygluefni berist úr umhverfinu inn í skólann en finnist ekki þar innanhúss. 

„Helsti sveppafræðingur landsins hrakti þessa niðurstöðu mjög eindregið. Sagði að þessar hættulegu tegundir sem höfðu fundist í sýnum, hún hefði ekki fundið þær í náttúrunni á Íslandi fyrir utan í eitt skipti á sínum starfsferli. Svo hún taldi mjög ólíklegt að þessar tegundir fyrirfindust í umhverfinu á Íslandi og væru að bera utanfrá inn í skólann. Þessar tegundir væru mun þekktari fyrir það að þrífast í rakaskemmdu efni innanhúss.“ segir Karl.

Hann segir að grettistaki hafi verið lyft í endurbótum í Fossvogsskóla en sérfræðingar þurfi að útskýra fyrir foreldrum hvað hafi verið gert og hver næstu skref eigi að vera til að leysa það í eitt skipti fyrir öll.

Lengri útgáfu viðtals við Karl má heyra hér að ofan.