Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

55 milljarðar í atvinnuleysis og hlutabætur

08.11.2020 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagsáhrifum faraldursins hafa til þessa kostað 80 milljarða króna. Veigamestar eru atvinnuleysis- og hlutabætur. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að leggja á ríkissjóð, segir fjármálaráðherra.

Umsvif í kringum 80 milljarða til þessa

Það hefur gengið á ýmsu síðan faraldurinn hófst og erfitt að áætla hvað ríkið þarf ríkið þarf að leggja mikið til til að bregðast við faraldrinum. Í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins um nýtingu heimila og fyrirtækja á úrræðum ríkisstjórnarinnar segir að nú líti út fyrir að halli ríkissjóðs verði 269 milljarðar króna árið 2020 og 264 milljarðar króna árið 2021. Áður en faraldurinn hófst var gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði nærri í jafnvægi á þessu tímabili. 

„Þegar horft er til aðgerða sem snúa beint að heimilum og fyrirtækjum, þá erum við með umsvif í kringum 80 milljarða,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Framlenging lokunarstyrkjafrumvarps og tekjufallsstyrkir er enn án verðmiða því ekki er vitað hversu margir einyrkjar og lítil fyrirtæki uppfylli öll skilyrði.

20 milljarðar í hlutabætur 

Stærsta einstaka efnahagsaðgerðin vegna faraldursins eru bætur vegna skerts starfshlutfalls. 36 þúsund manns hafa fengið hlutabætur upp á samtals nærri 20 milljarða króna. Um helmingur þeirra í ferðaþjónustutengdum greinum. eða 45%. Að auki hafa verið greiddir 35 milljarðar til þeirra sem eru með fullar atvinnuleysisbætur síðan faraldurinn hófst. 

Eins og er gildir hlutabótaleiðin aðeins til áramóta. Yfir 20% fyrirtækja segjast þurfa að fækka starfsfólki mikið eða nokkuð næstu þrjá mánuði. 10% ætla hins vegar að fjölga starfsfólki. Yfir 90% fyrirtækja segja ekki svigrúm til launahækkana, að því er kemur fram í skýrslu ráðuneytisins. 

3000 fyrirtæki hafa nýtt úrræði ríkisstjórnarinnar í faraldrinum. 65% fjárhæðarinnar fara til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Sjö fyrirtæki sem notið hafa aðstoðar hafa farið í gjaldþrot en búist er við því að þeim fjölgi á næsta ári.

Þá hafa um 340 fyrirtæki fengið 10,5 milljarða vegna launa á uppsagnafresti, meirihluti þeirra í ferðaþjónustu. Langmest hefur Icelandair fengið eða þrjá milljarða. Bláa lónið, Flugleiðahótel og Íslandshótel hafa fengið rúman hálfan milljarð hvert. Einn milljarður til þúsund fyrirtækja sem var gert að loka. Rúmlega þúsund fyrirtæki hafa sótt um stuðningslán upp á níu milljarða króna.

Stutt í ábyrgðarleysi þeirra sem vilja bæta í

Fjármálaráðherra hefur sagt að skuldir ríkissjóðs aukist um milljarð á dag. „Vondu tíðindin eru þau að það horfir ekki til þess að það lagist á næsta ári. Þessir fjármunir þurfa að nýtast vel, hjálpi til við að móta viðspyrnu,“ segir Bjarni jafnframt.

„Það eru ytri mörk á það hvað við getum lagt á ríkissjóð til að finna viðspyrnu í þessum efnahagsþrengingum. Mér finnst sumir tala af ákveðinni lausung um þetta, stutt í ábyrgðarleysi þegar menn tala sem svo að það skipti engu máli að bæta tugi milljarða á byrgðir ríkissjóðs,“ bætir hann við.