Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vongóð um góð bókajól

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV

Vongóð um góð bókajól

07.11.2020 - 18:48

Höfundar

Jólabókaflóðið er hafið en í allt öðru ástandi en áður. Bóksalar og útgefendur eru vongóðir. Bókabúðir eru fullar af bókum en þar eru afar fáir viðskiptavinir.  Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn því það er betra fyrir sálina og taugakerfið, segir bókaútgefandi. 

Bókatíðindi Félags íslenskra bókaútgefenda eru komin út á netinu. Þeim verður dreift um miðjan mánuðinn. Margar nýjar bækur eru komnar í bókaverslanir en fáir eru þar þessa dagana. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Guðrún Vilmundardóttir.

„Auðvitað er þetta uggvænlegt en það eru ýms teikn á lofti finnst mér sem ég hef séð í áhuga á bókunum sem við erum að gefa út, á sölu á netinu og þeim viðburðum sem er haldið til streitu, að ég finn fyrir bjartsýni. Mér finnst vera svona ákveðinn meðbyr með bókinni,“ segir Guðrún Vilmundardóttir útgáfustjóri Benedikts bókaútgáfu. 

Eftir síðustu stóru ágjöf í íslensku þjóðfélagi, þ.e.a.s. hrunið, var bóksala afar góð 2008 og níu og fólk leitaði frekar í rótgróna hefð það er að gefa bók í jólagjöf. 

„Það er svo mikið óvissuástand að það er hvorutveggja hægt. Maður getur verið bjartsýnn eða maður getur verið svartsýnn. Hvorugt á í rauninni við meiri rök að styðjast heldur en hitt. Það er miklu betra fyrir sálina og taugakerfið að vera bjartsýnn þ.a. ég ætla bara að leyfa mér að vera það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Borgar Jónsteinsson.

Borgar Jónsteinsson rekstrarstjóri verslunarsviðs Pennans Eymundsson segir að vissulegar sé ekki hægt að selja eins mikið og þegar aðeins tíu megi vera inni í einu en töluverð sala sé í gegnum netið líka:

„Það er má segja kannski ekki kominn þessi hasar í þetta ennþá. En bóksalan er bara jöfn og fín og svo sem alveg bara á pari miðað við sama tíma í fyrra.“

Ertu eitthvað svartsýnn?

„Nei, ég er sko ekki svartsýnn. Ég er bara mjög bjartsýnn af því að ég sé líka að útgáfan er mjög góð núna og það bara skiptir máli auðvitað fyrir okkur bóksala að sé fín.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV