Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Um 400.000 atkvæði enn ótalin í lykilríkjunum fjórum

epaselect epa08803855 Protestors calling for President Donald Trump and Vice President Mike Pence to leave the white house rally outside the Twitter headquarters in San Francisco, California, USA, 06 November 2020. Votes continue to be tallied in some states for the 2020 USA presidential election which was held on 03 November.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjórir dagar eru liðnir frá forsetakosningunum í Bandaríkjunum og enn hafa úrslitin ekki verið tilkynnt. Enda stendur talning atkvæða enn yfir í sex ríkjum og þar af ráða fjögur þeirra úrslitum um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna, en Biden er með yfirhöndina í þeim öllum.

Í Pennsylvaníu átti eftir að telja um 80.000 atkvæði um hádegisbilið í dag, í Georgíu á eftir að telja rúmlega 20.000 atkvæði, í Arizona á eftir að telja um 173.000 atkvæði og í Nevada á eftir að telja um 124.500 atkvæði. 

Biden er nú 0,5% yfir í Pennsylvaníu, 0,1% yfir í Georgíu, 1,8% yfir í Nevada og forskot hans í Arizona er 1%.

Hin tvö ríkin, þar sem talningu atkvæða er ekki lokið, eru Alaska og Norður-Karólína. Donald Trump Bandaríkjaforseti er með meirihluta atkvæða í þeim báðum eins og staðan er núna. Litlar líkur eru á að það muni breytast í Alaska þar sem hann er með yfir 62% atkvæða, en það gæti breyst í Norður-Karólínu þar sem 1,4 prósentustigum munar á honum og Joe Biden.

Samkvæmt frétt CNN verða næstu tölur birtar um klukkan 14, en ekki hefur verið gefið út hvenær búist er við að talningunni ljúki.