Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Trump neitar að viðurkenna sigur Bidens

epa08801971 US President Donald J. Trump holds a briefing in the Brady Briefing Room at the White House, in Washington, DC, USA, 05 November 2020. The 2020 Presidential Election result remains undetermined as votes continued to be counted in several key battleground states.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar að viðurkenna að Joe Biden hafi unnið sigur í forsetakosningunum. Nánast allir fjölmiðlar hafa lýst Biden sem sigurvegara en Trump segir að framboð hans muni hefjast handa strax á mánudag við að véfengja niðurstöður kosninganna. „Hann er ekki orðinn formlegur sigurvegari í neinum ríkjum,“ segir Trump í yfirlýsingu sem bendir til þess að hann ætli ekki að láta lyklavöldin í Hvíta húsinu svo auðveldlega af hendi.

Maggie Haberman, blaðamaður New York Times, birtir yfirlýsinguna á twitter-síðu sinni. Þar segist Trump vita af hverju Biden vilji flýta sér að lýsa sig sigurvegara og af hverju allir fjölmiðlar hjálpi honum við það. „Þau vilja ekki að sannleikurinn líti dagsins ljós.“ 

Joe Biden sé formlega ekki sigurvegari í neinum ríkjum Bandaríkjanna, hvað þá í þeim ríkjum þar sem mjótt er á munum.  Trump fullyrðir að látið fólk hafi fengið að kjósa og að víðtækt kosningasvindl sé í gang. „Hvað er Biden að fela? Ég mun ekki una mér hvíldar þar til bandaríska þjóðin hefur fengið þær heiðvirðu kosningar sem hún á skilið og lýðræðið krefst.“ 

Fjölmiðlar hafa síðustu daga bent á að Trump þurfi ekki að viðurkenna sigur Bidens, það sé ekkert í stjórnarskrá landsins sem kveði á um það.  Það eina sem þurfi til að verða forseti landsins séu minnst 270 kjörmenn.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV