Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur ólíklegt að Trump hafi erindi sem erfiði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, telur ólíklegt að Donald Trump hafi erindi sem erfiði við að véfengja úrslit forsetakosninganna fyrir dómstólum. „Þau mál sem hefur verið vísað til Hæstaréttar hafa annað hvort ekki fengið málsmeðferð eða verið vísað frá. Og ólíkt því sem gerðist fyrir tveimur áratugum þegar allt valt á einu ríki er núna verið að reyna að véfengja úrslit í fimm ríkjum.“

Joe Biden var í dag lýstur sigurvegari forsetakosninganna. Donald Trump, sitjandi forseti, hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að viðurkenna úrslitin heldur hefja baráttu fyrir dómstólum á mánudag.    

Silja Bára segir óvenjulegt að sá sem tapi viðurkenni ekki ósigur sinn. Hún  bendir jafnframt á að það sé ekkert sem kveði á um að forsetanum beri skylda að gera þetta og breyti engu um það ferli sem fari í gang núna..  „Þetta hefur verið ákveðinn hluti af valdaskiptaferlinu að frambjóðandinn sem tapar viðurkenni það með skeyti, símtali eða ræðu.“

Fyrir tveimur áratugum réðust úrslit forsetakosninganna á dómi Hæstaréttar um framkvæmd kosninganna í Flórída. Silja Bára segir stöðuna allt aðra nú.  Bæði virðist barátta Trumps ekki vera  úthugsað hvaða réttarfarslegu atriði verið sé að véfengja og að þá eru þetta fimm ríki en ekki eitt eins og þá. „Þannig að það er ólíklegt að þetta skili Trump einhverjum viðsnúningi.“

Hún bendir jafnframt á að Trump þurfi sigur í Pennsylvaníu og öðru ríki og það geti haft áhrif á Hæstarétt sem telji að jafnvel þótt eitt ríki rati fyrir dómstólinn telji hann niðurstöðuna ekki hafa teljandi áhrif. 

Hún segir að Biden hafi lagt mikla áherslu á samskipti við fyrirtæki og stofnanir sem skipti máli í bandarísku þjóðlífi. Í þeim samtölum hafi hann lagt áherslu á að þegar þau óski honum til hamingju með sigurinn láti þau þess getið að kosningarnar hafi verið löglegar og að þau styðji það ferli sem sé að fara af stað.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV