Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sóttkvíarbíó í hertu samkomubanni

Mynd: Samsett mynd/RÚV / Netflix

Sóttkvíarbíó í hertu samkomubanni

07.11.2020 - 16:10

Höfundar

Bíórýnir Lestarinnar nýtir tímann vel í samkomubanninu og rýnir hér í þrjár nýlegar kvikmyndir sem allar eru aðgengilegar á efnisveitunni Netflix; His House, Horse Girl og Rebecca.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Heimabíópistlarnir halda áfram í ástandinu sem enn ríkir og í sóttkví síðustu viku leitaði ég á náðir Netflix og horfði á þrjár kvikmyndir – tvær splunkunýjar og eina sem hefur hangið inni á listanum hjá mér mánuðum saman. Hefjum leikinn með ensku hrollvekjunni His House, eða Hans hús, sem var frumsýnd hjá streymisveitunni rétt fyrir hrekkjavökuhelgina. Þar segir frá pari á flótta frá Suður-Súdan sem hlýtur hæli á Englandi eftir erfitt ferðalag. Bol og Rial er úthlutað tímabundnu húsnæði á meðan mál þeirra fer í gegnum kerfið og saman þurfa þau að horfast í augu við nýja veröld í ókunnu landi. En draugar fortíðar hafa fylgt þeim norður og fljótlega kemur í ljós að þau eru ekki ein í húsinu.

His House er óvenjuleg draugasaga um sjaldséð efni og blandar í raun saman gamalgróinni draugahúsahefð hrollvekjunnar og samfélagsdrama um reynsluheim flóttafólks sem hefur þurft að segja skilið við fyrra líf og mæta sem óboðnir gestir á stað sem tekur ekki vel á móti þeim. Draugahúsið þjónar tvöföldu hlutverki í sögunni, annars vegar sem nokkurs konar framlenging á kuldalegu viðmóti nágrannanna, kraftur sem vill frekar gera öðrum illt en að hjálpa, og hins vegar er húsið táknrænt fyrir sársaukann, hryllinginn og sorgina sem fylgir parinu eftir flóttann úr heimalandinu. Sope Dirisu og Wunmi Mosaku eru reglulega góð í aðalhlutverkunum og persónur þeirra gefa myndinni heilmikla dýpt. Frásögnin flæðir vel á milli minninga frá Suður-Súdan og hversdagsleikans í útverfum Lundúnaborgar og draugar fortíðar verða ljóslifandi í myrkum herbergjum hússins ógurlega. Draugar sem birtingarmyndir sorgar og tráma hefur verið algengt stef í hrollvekjum síðustu ára – Babadook og Midsommar líklega bestu dæmin – en með því að tengja draugahúsið við stöðu flóttafólks tekst leikstjóranum Remi Weekes að draga fram nýjar hliðar á kunnuglegu formi.

Þematískt er His House reglulega áhugaverð og grípandi mynd – þótt hún gangi kannski ekki nógu vel upp sem hrollvekja. Hvað það varðar nær leikstjórinn ekki alveg að sameina báða þætti og ákveðnir hlutar plottsins grafa í raun undan kjarnahugmyndinni um flóttafólkið og hryllinginn sem raunverulegan. “Hvers vegna ætti ég að óttast drauga?” spyr Rial á einum stað, því draugahús er ekkert miðað við þá grimmd sem hún hefur upplifað á ævinni. En myndin nær ekki að hrista af sér draugaklisjurnar sem skapar ákveðna ómstríðu innan söguheimsins. Þannig er t.d. gefið í skyn að húsið sé reimt áður en þau flytja inn og að sama skapi virðast draugarnir fylgja þeim frá heimalandinu. Einnig er ákveðinn snúningur á fléttunni sem á sér stað í seinni hlutanum sem er ekki nógu vel ofinn saman við heildarmyndina og gerði að verkum að ég missti tenginguna við atburðarásina á lokasprettinum.

Truflað sjónarhorn

Kíkjum næst á bandarísku furðumyndina Horse Girl, Hestastúlku, sem var frumsýnd á Sundance-hátíðinni og kom inn á Netflix fyrr á þessu ári. Alison Brie, sem margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum Mad Men, Glow og Bojack Horseman, skrifar handritið ásamt leikstjóranum Jeff Baena og leikur jafnframt aðalhlutverkið. Myndin fylgir Söruh, ungri konu sem vinnur í föndurbúð og hefur dálæti á hestum, en er einmana, vinafá og mögulega haldin alvarlegum ranghugmyndum um sjálfa sig og raunveruleikann. Amma hennar átti við geðræn vandamál að stríða, endaði sem útigangskona og dó á götum úti ein og yfirgefin. Sarah þekkti hana aldrei, en óttast að verða eins og hún – og jafnvel að hún sé amma sín endurfædd, ef ekki einfaldlega klónuð. Horse Girl er karakterstúdía um konu sem er á barmi þess að missa vitið og kvikmyndin fylgir trufluðu sjónarhorni aðalpersónunnar þegar undarlegir draumar hennar byrja að blæða inn í raunveruleikann.

Horse Girl byrjar eins og nokkuð hefðbundin bandarísk indie-mynd um skemmtilega skrítna unga konu sem er vandræðaleg í ástum og dálítið á skjön við meginstrauminn, en jafnt og þétt breytist sagan eftir því sem furðan vindur upp á sig. Alison Brie heldur myndinni uppi í burðarhlutverkinu og túlkar bæði ofsóknarbrjálæðið og viðkvæmnina með prýði. Myndin er líka fantavel klippt saman og óáreiðanlegt sjónarhorn aðalpersónunnar gerir að verkum að sagan er grípandi út í gegn. Tónninn er einhvers konar blanda af vísindaskáldskap og persónudrama en myndin gerir þó aldrei lítið úr upplifun Söruh sjálfrar, þótt hugmyndir hennar um heiminn og sjálfa sig verði sífellt ævintýralegri. Að einhverju leyti virðist leikstjórinn vilja halda því óræðu hvort upplifanir Söruh séu raunverulegar eða ímyndun, en það gengur ekki alveg upp, aðallega vegna ákveðinnar atburðarásar um miðja myndina sem fer, að mínu mati, of langt yfir strikið í aðra áttina og drepur að miklu leyti niður alla dulúð. Að öðru leyti er Horse Girl slungin og óvenjuleg mynd sem tekst að halda á lofti bæði naumhyggju í brotakenndri frásögninni og ýja að yfirgengilega brjáluðum hugmyndum um geimverur, klóna og tímaflakk.

Slándi líflaus

Ljúkum þessu með nýjustu mynd leikstjórans Ben Wheatley, Rebeccu, sem byggir á samnefndri skáldsögu Daphne DuMaurier. Þar segir frá ungri, nafnlausri konu – frú de Winter hin síðari, leikin af Lily James – sem kynnist ekklinum Maxim de Winter, leikinn af Armie Hammer, á ferðalagi um suður Frakkland. Þau verða ástfangin, hann biður hana að giftast sér, og hún fylgir honum heim til Englands á óðalssetrið Manderley. En þar bíður hennar ekki hið ljúfa líf sem hún hefur óskað sér, vegna þess að vofa fyrri eiginkonunnar, Rebeccu, svífur yfir öllu húsinu og ungu konunni reynist ómögulegt að fylla í skarðið.

Þessi mynd kom mér í opna skjöldu – ekki myndin sjálf, þannig séð, heldur einfaldlega að hún hafi verið gerð. Eins og frægt er leikstýrði Alfred Hitchcock Rebeccu árið 1940, sem var jafnframt fyrsta mynd hans í Hollywood, og er sú útgáfa talin vera klassík. Að sjálfsögðu má alveg gera aðrar útgáfur af klassískum myndum, túlka skáldsögur upp á nýtt, en það sem kom mér á óvart var að leikstjórinn Ben Wheatley skyldi ákveða að gera þessa mynd. Fyrri myndir Wheatleys eru af ýmsum toga, en eiga það allar sameiginlegt að vera tilraunakenndar, ofbeldisfullar og yfirgengilegar á ólíka vegu – Kill List, A Field in England, High Rise, Sightseers og Free Fire – þannig að drungaleg ástarsaga þar sem öfund, hatur og rómantík malla undir kaldranalegu yfirborði hljómaði eins og undarlegt val fyrir leikstjórann. En það er líka spennandi þegar listamenn fara óvenjulegar leiðir og ég hlakkaði til að sjá hvers lags orku Wheatley kæmi með inn í söguna.

Því er nánast sláandi hversu líflaus Rebecca er á heildina litið. Myndin nær aldrei almennilegu flugi, þótt efnið sé vissulega áhugavert. Myndin lítur óaðfinnanlega út og Lily James stendur sig mjög vel í aðalhlutverkinu, en ég hef aldrei verið hrifinn af Armie Hammer og fannst hann alls ekki vera í réttu hlutverki hér. Það er samt næstum þess virði að horfa á Rebeccu bara til að sjá Kristinu Scott Thomas í hlutverki ráðskonunnar ógurlegu, frú Danvers, því hún er stórkostleg. Ég hef heyrt gagnrýni á myndina þess efnis að óþarfi sé að endurgera það sem Hitchcock gerði svo vel – sem ég tek ekki endilega undir – og líka að handritið að nýju myndinni misskilji lykilatriði úr bókinni, m.a. með því að vekja of mikla samúð með aðalpersónunum – en ég þekki sjálfur ekki bókina nógu vel til að segja til um það. Því reyndi ég að horfa á Rebeccu sem sjálfstæða mynd, eina og sér, en sem einlægur aðdáandi leikstjórans gat ég ekki annað en orðið fyrir vonbrigðum með hversu hefðbundin myndin er, bitlaus og auðgleymanleg.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Prinsessurnar sem frelsuðu sig sjálfar úr álögum

Kvikmyndir

Máttur söngsins, ósýnilegar hetjur og lifandi póstkort

Kvikmyndir

Falleg tímaskekkja sem er hressandi að gleyma sér í

Kvikmyndir

Mikið sjónarspil en Nolan-þreyta gerir vart við sig