Listamenn á ferð og flugi um borgina í dag

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV

Listamenn á ferð og flugi um borgina í dag

07.11.2020 - 19:48

Höfundar

Fjöldi listamanna gladdi íbúa höfuðborgarinnar með ýmiss konar uppákomum við heimili þeirra í dag. Uppákomurnar nefnast Listagjafir Listahátíðar þar sem fólki gafst kostur á að gleðja sína nánustu með viðburði.

„Ég hugsaði til vinkonu minnar hennar Svanhvítar sem býr hérna uppi í Breiðholti. Hún hefur verið mér mjög kær svo mér þótti voða vænt um að geta gefið henni þessa gjöf“ segir Laufey Elísabet Gunnarsdóttir sem gaf æskuvinkonu sinni horntónleika utan við heimili hennar. Hún tók sannarlega vel í gjöfina.

„Þetta er bara ólýsanlegt og æði. Ég átti ekki vona á þessu, hafði ekki hugmynd um þetta. Meiriháttar.“

Ertu orðin tónleikaþyrst?

Já algjörlega. Þetta er held ég það besta sem maður getur fengið, besta gjöfin“ segir Svanhvít Bragadóttir sem fékk tónleikana að gjöf.

„Fólk er búið að vera svo ánægt og svo glatt og hissa á góðan hátt. Fólk vissi ekki hverju það ætti von á. Þetta er búið að koma flestum á óvörum. Og þeir sem voru að gefa gjöfina vissu heldur ekki hvaða listamann það væri að fá“ segir Stefán Jón Bernharðsson hornleikari sem var einn þeirra listamanna sem komu fram.

Viðburðahaldið er ekki síður kærkomið fyrir listamennina sjálfa sem hafa ekki getað komið fram lengi.

„Þetta er eins og við töluðum um áðan þegar við spiluðum, þetta var fyrsta giggið í marga mánuði, svo manni finnst eins og maður sé leystur úr læðingi. Það er voða gaman að fá að gleðja fólk,“ segir Valdimar Guðmundsson söngvari.

Atriðin voru af ýmsum toga allt frá tónleikum, hringleikahúsi, upplestri og dragsýningum.

„Þrátt fyrir rigningu og volæði, bara að vera fyrir framan fólk aftur þó að það sé sjö metra í burtu, þetta er búið að vera einlægt og fallegt,“ segir Gógó Starr, dragdrottning.

Tengdar fréttir

Myndlist

Fengu eina viku til að endurhugsa listahátíð frá grunni

Menningarefni

Djörf og óvenjuleg ákvörðun Listahátíðar í Reykjavík

Menningarefni

Listahátíð í Reykjavík ekki aflýst