Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Giuliani útskýrði baráttu Trumps á skrautlegum fundi

epa08805230 Trump lawyer Rudy Giuliani speaks during a press conference after Joe Biden was declared as winner of the 2020 Presidential Election in Philadelphia, Pennsylvania, USA, 07 November 2020.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um það leyti sem fjölmiðlar um allan heim greindu frá því að Joe Biden hefði verið lýstur sigurvegari forsetakosninganna eftir sigur í Pennsylvaníu stóð Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trumps, fyrir blaðamannafundi í Fíladelflíu. Þar lagði hann línurnar fyrir baráttu forsetans næstu daga. „Ekki vera með þessa vitleysu - fjölmiðlar ákveða ekki úrslit kosninganna,“ svaraði borgarstjórinn fyrrverandi þegar hann var spurður út í tíðindin af kosningunum.

Þótt David Bossie hafi verið valinn til að stýra baráttu Trumps fyrir dómstólum er það Giuliani sem virðist eiga vera andlit hennar. Hann hefur verið persónulegur lögmaður Trumps, svokallaður „fyrsti vinur“. Mörgum þykir hann vera kominn býsna langt af leið frá því að hann var þjóðhetja í Bandaríkjunum eftir hryðjuverkaárásirnar 2001, þá sem borgarstjóri New York.

Giuliani var aðalstjarnan á blaðamannafundinum í dag sem var nokkuð óvænt haldin við garðyrkjufyrirtækið Four Seasons en ekki hótelkeðjuna sem ber sama nafn. Skammt frá var verslun sem sérhæfir sig í sölu klámtímarita. 

Giuliani var í miklum ham og fullyrti meðal annars að það hefði verið átt við kjörseðlana í Pennsylvaníu. Hann hafði með sér þrjá eftirlitsmenn sem hann sagði að hefði verið meinað að fylgjast með talningu atkvæða. „Ég hefði getað komið með 50 en það hefði verið of mikið.“ 

Giuliani sagði að auðvitað myndi forsetinn ekki játa ósigur því 600 þúsund atkvæði væru í húfi. Hann skellti skuldinni á kosningavél Demókrata, það væri hún sem væri ábyrg fyrir því að eftirlitsmönnum hefði ekki verið hleypt inn.  Fólk sem væri dáið hefði greitt atkvæði og Demókrataflokkurinn héldi því leyndu.  

Skýrasta dæmið um að eitthvað væri rotið við kosningarnar í Pennsylvaníu væri að forystan sem Trump hefði haft á kosningadaginn hefði gufað upp eftir að byrjað var að telja utankjörfundaatkvæði.

CBS bendir á að samkvæmt reglum Pennsylvaníu megi ekki byrja að telja slík atkvæði fyrr en búið er að telja hefðbundin atkvæði. „Þú glatar ekki niður svona forystu án spillingar,“ sagði Giuliani, án þess að hika.

Þá húðskammaði hann fjölmiðla fyrir að tala máli Joe Bidens og lýsa hann sigurvegara. Eins og þeir gerðu reyndar, þá án athugasemda, fyrir fjórum árum þegar Trump var lýstur sigurvegari. „Fjölmiðlar ákveða ekki hver vinnur kosningar. Það er hlutverk dómstóla,“ sagði borgarstjórinn fyrrverandi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV