Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Getum glaðst en ekki slakað, segir Þórólfur

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnalæknir er ánægður með hvað almenningur tekur vel við sér og fer eftir tilmælum. Af 25 smitum í gær voru aðeins fimm utan sóttkvíar. Hæst hlutfall smita er á Norðurlandi eystra. Hann segir að þótt hægt sé að gleðjast yfir fækkun smita undanfarið þýði það ekki að hægt sé að hætta takmörkunum. Hann vonar að þó verði hægt að slaka að einhverju leyti á í náinni framtíð. 

Fimm af 25 utan sóttkvíar

25 af tæplega 1500 innanlandssýnum í gær voru jákvæð samkvæmt covid.is. 20 af þessum 25 voru í sóttkví. Nú eru 710 kórónuveirusmitaðir og 989 í sóttkví. 78 COVID-sjúklingar liggja á Landspítala og fjórir á gjörgæslu eins og í gær.

Hæst hlutfall smita á Norðurlandi eystra

Á höfuðborgarsvæðinu eru 468 smitaðir og næstflestir á Norðurlandi eystra eða 115. Ef litið er á hlutfall smitaðra af íbúafjölda er hlutfallið hæst á Norðurlandi eystra. Þar eru 0,4 prósent íbúa smitaður. Á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi er hlutfallið 0,2. Þar á eftir koma Vesturland, Norðurland vestra, Suðurnes, Vestfirðir og lægst er Austurland, en þar eru tveir smitaðir. 

Almenningur tekur vel við sér og fer að fyrirmælum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hafa verið ágætlega ánægður undanfarna daga:

„Vegna þess bara að mér sýnist fólk vera að taka vel við sér og taka þátt í því sem verið er að gera og fara eftir því sem það er beðið. Og svo náttúrulega eru tölurnar að fara hægt og býtandi niður og sérstaklega erum við að sjá einstaklinga utan sóttkvíar. Sú tala er að fara niður. En það þýðir líka það að við munum áfram búast við náttúrulega tilfellum eða smitum í hópi þeirra sem eru í sóttkví. Þannig að við eigum eftir að fá nokkrum fjölda þaðan en við viljum helst sjá sem minnst af samfélagslegum smitum.“

Thor Aspelund sagði í gær að fólk þyrfti að taka þetta mjög alvarlega alla vega næstu þrjár vikurnar?

„Ég myndi nú segja að það þyrfti að taka þetta alvarlega miklu lengur en það. Við þurfum bara að venja okkur við það núna að á meðan við fáum ekki einhverja góða lausn á þessum faraldri þá þurfum við bara að halda áfram að taka allt þetta alvarlega. Þannig að ég er að horfa til lengri tíma en þriggja vikna.“

Mælir með að fara hægt í tilslakanir

Þú getur ekki sagt um það núna hvort þú munir mæla með einhvers konar tilslökunum?

„Nei, ég er ekki tilbúinn til þess. Það er eitthvað rúm vika þangað til að ný reglugerð þarf að taka gildi og ég þarf bara að sjá fram yfir helgina hvernig þetta þróast og hvernig þetta verður. Ég mun örugglega mæla með því að það verði farið mjög hægt í sakirnar í afléttingu. Ég held að það sé best fyrir alla sérstaklega þegar við erum að horfa á hvað er að gerast bara í Evrópu og nálægum löndum þar sem að allir eru að herða aðgerðir og skella í lás og nánast útgöngubann að þá held ég að það þurfi að gilda fyrir okkur líka. Við getum glaðst yfir því sem við höfum séð núna en það þýðir ekki það að við getum farið að hætta því sem við erum að gera, síður en svo. Við verðum að halda því áfram. En vonandi verður hægt aðeins að slaka að einhverju leyti í náinni framtíð.“