Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Fjandsamlegur þeim sem kusu á móti honum“

President Donald Trump delivers remarks on Iran, at his Mar-a-Lago property, Friday, Jan. 3, 2020, in Palm Beach, Fla. (AP Photo/ Evan Vucci)
 Mynd: AP
Það hefur sjaldan verið lognmolla í kringum Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann er umdeildur og óútreiknanlegur og í þessi tæplega fjögur ár sem hann hefur setið á forsetastóli hefur sjaldan verið róleg stund í Hvíta húsinu. Forsetatíð hans hefur einkennst af átökum við fjölmiðla og pólitíska andstæðinga, sundrungu og nú síðast slælegum viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum. Bandarískt efnahagslíf var þó í blóma í byrjun árs. Heimsfaraldurinn átti hins vegar eftir að setja strik í reikninginn.

Trump sór embættiseið í janúar árið 2017 og varð þá formlega 45. forseti Bandaríkjanna. Rúmlega tveimur mánuðum áður hafði hann betur í kosningunum gegn mótframbjóðanda sínum úr röðum Demókrata, Hillary Clinton. Kosningabaráttan gegn Clinton gekk að mestu út á hvað hún væri spillt - að hún væri hluti af fámennri elítu sem þyrfti að koma frá völdum.

Trump lofaði að gera Bandaríkin frábær aftur. Hann gerði innflytjendamál að hornsteini kosningabaráttunnar og hét því að fjölga framleiðslustörfum.

Kjósendur Trumps enn ósáttir við stjórnvöld

Það kom flestum á óvart að Trump skyldi standa uppi sem sigurvegari. Samkvæmt skoðanakönnunum voru taldar rúmlega 70 prósent líkur á að Clinton bæri sigur úr býtum og myndi snúa aftur í Hvíta húsið eftir fimmtán ára fjarveru. Hún fékk vissulega tæplega þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump, en hann fékk fleiri kjörmenn - og það er það sem skiptir máli í Bandaríkjunum. Hann höfðaði til samfélagshópa sem voru þeirrar skoðunar að stjórnvöld í Washington hefðu hreinlega gleymt þeim og vandamálum þeirra. Þá virtist fátt bíta á hann í kosningabaráttunni. Hann móðgaði fjölda fólks, stofnaði til illdeilna og talaði niður til kvenna. Það virtist ekki skipta máli og hann komst að mestu hjá því að biðjast afsökunar á ummælum sínum.

Marc Fisher er ritstjóri hjá The Washington Post og annar höfundur metsölubókarinnar Trump Revealed: The Definitive Biography of the 45th President. Hann segir Trump hafa náð kjöri vegna óánægju fólks í miðríkjum Bandaríkjanna sem hafi fundist hvorki Demókratar né Repúblikanar bjóða fram lausnir á vanda þess. Það fólk er enn ósátt við stjórnvöld að mati Fisher.

„Þessi hópur hefur misst vinnuna og veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér vegna alþjóðavæðingar, tæknibyltingar og vegna breytinga á vinnumarkaði. Hann er enn ósáttur við stjórnvöld, eins og hann var ekki einungis fyrir fjórum árum heldur líka fyrir tólf árum þegar þessi hópur kaus Obama. Það hefur verið ákveðinn hluti kjósenda á síðustu tveimur, þremur áratugum sem finnst hvorugur flokkurinn bjóða fram lausnir sem leyfa millistéttinni að blómstra og mótmælir því með að kjósa óhefðbundna frambjóðendur,“ segir hann.

Fisher segir Trump þó hafa gert lítið fyrir þennan hóp fyrir utan það að sýna þeim tilfinningalegan stuðning. „Hann hefur augljóslega ekki veitt þessum kjósendum þá efnislegu velgengni sem þeir sækjast eftir. Hann hefur ekki skilgreint framtíð fyrir þá. Þess í stað hefur hann höfðað til þeirra á mjög afturhaldssaman og nostalgískan hátt. Hann hefur endurspeglað tilfinningar þeirra, áhyggjur og vonbrigði með hætti sem Demókratar hafa ekki gert,“ segir hann.

Stuðningur við Trump haldist stöðugur

Sama dag og Trump sór embættiseið undirritaði hann forsetatilskipun um að minnka útgjöld vegna heilbrigðistryggingakerfisins sem forveri hans, Barack Obama, kom á. Hugmyndin var að lágmarka efnahagslega byrði þess þar til nýtt og betra kerfi tæki við. Og þetta var einungis ein af tólf tilskipunum sem hann gaf út strax fyrstu vikuna í embætti.

Hann skrifaði einnig undir tilskipun um að reisa múr eftir endilöngum landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, eins og hann hafði ítrekað lofað í kosningabaráttunni. Trump gaf út tilskipun tveimur árum síðar um að ákæra ætti alla sem ferðuðust ólöglega yfir landamærin og fjöldi barna var aðskilinn frá foreldrum sínum vegna hertrar landamæralöggjafar. Foreldrar á sjötta hundrað barna hafa enn ekki fundist og er talið að þeim hafi verið vísað úr landi án barnanna.

Fyrstu vikuna í embætti setti hann jafnframt fram drög að starfsáætlun í loftslagsmálum þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að afnema íþyngjandi reglugerðir sem miðuðu að því að draga úr mengun. Trump átti síðar eftir að draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Þrátt fyrir að orðstír landsins hafi oft beðið hnekki vegna framkomu forsetans hefur stuðningur við hann haldist stöðugur öll hans ár í embætti, eða rúmlega fjörutíu prósent. Fisher segir hann einfaldlega vinsælann hjá sínu fólki, sérstaklega á meðan Demókrataflokkurinn setur hvorki fram frambjóðendur né stefnumál sem tala til þessa hóps.

„Þegar annar flokkurinn býður upp á frægan mann sem er einstaklega góður í að spila með fjölmiðla með hjálp flokksins er mjög erfitt fyrir hinn flokkinn að mæta því með stefnumálum. Stefnumálin eiga ekki roð í leiðtoga sem er gæddur persónutöfrum og hikar ekki við að brjóta allar reglurnar,“ segir Fisher.

Pólitískir sigrar og ósigrar forsetans

Ef litið er til þeirra mála sem samflokksmenn forsetans hafa kallað pólitíska sigra hans má nefna að Trump hefur skipað þrjá hæstaréttardómara á forsetatíð sinni: Brett Kavanaugh, Neil Gorsuch og Amy Coney Barrett. Nú eru því sex íhaldssamir dómarar við hæstarétt Bandaríkjanna og þrír frjálslyndir. Dómararnir eru ráðnir ævilangt og hefur Trump því tekist, að óbreyttu, að hafa langvarandi áhrif á dómskerfið og stjórnmálin íhaldsfólki í vil.

Forsetanum tókst einnig að koma einni viðamestu breytingu sem gerð hefur verið á bandarísku skattalöggjöfinni í ríflega þrjátíu ár í gegnum öldungadeildina. Löggjöfin kom á umtalsverðum skattalækkunum, sem einkum hafa nýst fyrirtækjum og hinum efnameiri í landinu.

Þá fékk Trump lof, bæði frá samflokksmönnum og andstæðingum, þegar hann undirritaði hina svokölluðu First Step Act löggjöf í desember fyrir tveimur árum. Lögin eiga að fækka fangelsisvistuðum, bæta aðstöðu fanga og áhersla er lögð á að fyrirbyggja að fangar leiðist aftur út í glæpi að fangelsisvist lokinni.

Einnig má nefna að Abu al-Baghdadi, stofnandi og leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins, féll í árás Bandaríkjahers í Sýrlandi á síðasta ári. Trump segir að það hafi verið eitt af helstu markmiðum stjórnar hans að hafa hendur í hári Baghdadis. Baghdadi hafi grátið og öskrað á flótta undan hermönnunum.

Ef litið er á málin sem forsetanum tókst ekki að koma í gegnum þingið, hneykslismálin og óeininguna má fyrst nefna að Trump varð í byrjun árs þriðji forsetinn sem hefur verið ákærður til embættismissis fyrir að hafa misbeitt valdi sínu. Trump var grunaður um að hafa haldið nærri 400 milljón dollara varnaraðstoð til Úkraínu, þar til þarlend stjórnvöld samþykktu að hefja rannsókn á Joe Biden. Trump var sýknaður af öldungadeildinni og þótti það til marks um að þingmenn Repúblikanaflokksins stæðu við bakið á honum.

Bandarískt efnahagslíf var í blóma í byrjun árs og atvinnuleysi sögulega lítið. Það eitt og sér virtist ætla að skila Donald Trump langt í baráttunni um forsetaembættið en kórónuveirufaraldurinn átti heldur betur eftir að setja strik í reikninginn.

Trump hefur sagst hafa byggt upp sterkasta efnahagskerfi Bandaríkjanna frá upphafi mælinga og að mikil efnahagsleg viðspyrna eigi sér nú stað eftir sögulega kreppu vegna faraldursins. Það er vissulega rétt að efnahagslífið hafi verið í blóma í byrjun árs en það er þó þróun sem hefur átt sér stað yfir lengri tíma.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur verið um 2,5 prósent á ári síðastliðin þrjú ár en var 2,3 prósent á ári í forsetatíð Obama. Í febrúar var hlutfall atvinnulausra í Bandaríkjunum það lægsta sem það hafði verið í rúmlega fimmtíu ár, eða 3,5 prósent. Þess ber þó að geta að sjö milljón ný störf voru sköpuð á síðustu þremur árum Obama í embætti, samanborið við 6,4 milljónir starfa á fyrstu þremur árum núverandi forseta.

Marc Fisher bendir jafnframt á að hagvöxtur hafi verið að aukast og atvinnuleysi að minnka á heimsvísu á síðustu árum. Þó hafi stefna Trump að vissu leyti skapað störf á þeim svæðum þar sem hann lofaði þeim. „Með því að afnema reglugerðir, sem snéru til að mynda að loftslagsmálum, urðu til störf á svæðum þar sem stuðiningsfólks hans býr. Honum tókst það en kórónuveirufaraldurinn gerði þann árangur að engu,“ segir Fisher.

Joe Biden hefur sakað Trump og stjórn hans um að hafa gefist upp í baráttunni gegn COVID-19 farsóttinni. Viðbrögð Bandaríkjastjórnar við útbreiðslu veirunnar einkenndust til að byrja með af því að gera lítið úr þeirri hættu sem stafar af veirunni og síðan hafa viðbrögðin einkennst af stefnuleysi og slælegum vinnubrögðum.

Hvergi annars staðar hafa fleiri kórónuveirutilfelli greinst. Tæplega níu og hálf milljón Bandaríkjamanna hefur smitast og rúmlega 232 þúsund manns látið lífið af völdum sjúkdómsins. Bandaríkjaforseti stofnaði verkefnahóp í lok janúar sem hefur haft það hlutverk að skipuleggja aðgerðir sem eiga að fækka smitum og bregðast við afleiðingum faraldursins. Trump hefur sagt að aðalmarkmið hópsins sé núna að opna landið að nýju á sem öruggastan hátt. Þá lofaði hann bóluefni sem enn bólar ekkert á.

Trump bar sjaldan grímu á kosningafundum sínum í haust og gerði lítið af því að hvetja til grímunotkunar. Forsetinn gerði líka grín að Joe Biden fyrir að bregða sér helst ekki úr húsi grímulaus. Vísindamenn við Stanford-háskóla í Kaliforníu birtu í síðustu viku niðurstöður rannsóknar á áhrifum fjöldasamkoma á útbreiðslu farsóttarinnar. Þar kom fram að að líkindum mætti rekja um 30 þúsund COVID-19 smit og 700 dauðsföll til fjölmennra kosningafunda forsetans.

Marc Fisher segir Trump markvisst hafa gert lítið úr alvarleika faraldursins og annað hvort ekki tekist eða ekki viljað samúð með þeim sem veiktust. „Það ætti að vera auðvelt verk fyrir stjórnmálamann að tengjast fólki á þannig tímum en honum tekst það ekki. Þrátt fyrir það sjáum við að fyrir um helming Bandaríkjamanna er það í góðu lagi. Sá hópur vill frekar að hann láti í ljós reiði þeirra en að hann hamli útbreiðslu veirunnar,“ segir Fisher.

Staðan hefur beint athygli fólks að heilbrigðiskerfinu sem hefur verið undir miklu álagi vegna faraldursins. Trump lofaði að afnema núverandi heilbrigðistryggingakerfi, Obamacare, sem var ætlað að bæta heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum, fækka ótryggðum einstaklingum og herða reglur og eftirlit með sjúkratryggingum fyrirtækja. Það tókst ekki þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Fisher segir Trump hafa lítinn sem engan áhuga á því að koma á öðru kerfi. 

„Hann heldur áfram að fá stuðning með því að gagnrýna núverandi heilbrigðistryggingakerfi og lofa nýju kerfi, rétt eins og hann lofar að opinbera skattaskýrslur sínar og reisa múr á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Þetta eru loforð sem henta honum vel að halda á lofti en hann hefur ekki áhuga á að koma þessu í verk,“ segir hann.

Segir Trump ekkert hafa gert til að sameina þjóðina

Kórónuveiran er þó ekki það eina sem hefur einkennt þetta kosningaár. Mótmæli og óeirðir hafa verið nánast daglegt brauð eftir að lögreglumaður varð George Floyd að bana í maí síðastliðnum. Mótmælendur hafa krafist úrbóta vegna kerfisbundins rasisma og lögregluofbeldis. Demókratar hafa lagt áherslu á að allt þetta sé að gerast á vakt sitjandi forseta sem hafi grafið undan öryggi í landinu með því að ýta undir klofning á tímum þegar hávær umræða fer fram um kynþáttafordóma og lögregluofbeldi.

Viðbrögð forsetans við kerfisbundnum rasisma var einnig í brennidepli þegar þjóðernissinnar og öfgahægrihreyfingar komu saman í borginni Charlottesville í ágúst árið 2017. Það sló í brýnu á milli þeirra og annarra sem komu til að mótmæla samkomunni og kona lést þegar nýnasisti ók bíl sínum í gegnum þvögu mótmælenda. Trump sagði gott fólk hafa verið í báðum hópum.

Fisher segir að Bandaríkjaforseti hafi ekki gert neitt til að sameina þjóðina á tímum mikillar óeiningar. „Hann er forseti þeirra sem studdu hann og fjandsamlegur þeim sem kusu á móti honum. Það sorglega er að það er lykilatriði og fremur auðvelt fyrir leiðtoga að sameina fólk á neyðartímum. Það er ekki hluti af leikskipulagi Trumps. Hann hefur farið í gegnum tvær kosningar og aldrei reynt að höfða til hins hópsins,“ segir hann.

Verður frjálslyndari haldi hann völdum

Fisher telur að Trump verði frjálslyndari haldi hann völdum. „Takist honum að vinna þessar kosningar og sitja annað kjörtímabil held ég að við getum búist við því að sjá eitthvað af hinum gamla Donald Trump frá því áður en hann lagðist í eina sæng með íhaldsmönnum og evangelistum, sem tryggði honum embættið,“ segir Fisher. „Hann er ekki íhaldssamur í eðli sínu. Hann er eyðsluseggur, frjálslyndur New York búi og ég held að við sjáum ögn meira af því nái hann öðru kjörtímabili því þá þarf hann aldrei að hafa áhyggjur af kosningum framar,“ segir hann.

Eins og staðan er núna er þó mun líklegra að Biden hafi betur. „Ef það gerist hefur Trump lengi verið þekktur fyrir viðbrögð sín við ósigrum. Hann hefur siglt flestum fyrirtækjum sínum í strand. Saga hans segir okkur að viðbrögð hans verði að þusa um það sem gerðist, afneita því sem gerðist, kenna öðrum um það sem gerðist og síðan einfaldlega fara. Hann færir sig yfir í það næsta. Mikið er talað um að hann fari í fjölmiðla og stofni jafnvel sjónvarpsstöð,“ segir Fisher.