Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

12% fleiri börn tilkynnt til barnaverndarnefnda

07.11.2020 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Barnaverndarnefndum bárust 9.570 tilkynningar vegna 7.552 barna fyrstu níu mánuði ársins. Það er 14,3% meira en á sama tímabili árið á undan og aukning um 27,5% ef miðað er við fyrstu níu mánuði ársins 2018. Í fyrra bárust tilkynningar vegna 6.675 barna á sama tímabili og því  hefur verið tilkynnt um 12% fleiri börn það sem af er þessu ári.

Þetta kemur fram í samantekt Barnaverndarstofu. 

Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa barnaverndanefndum borist fleiri tilkynningar um vegna ofbeldis en allt árið 2016 og '18 og tilkynningar vegna vanrækslu barna fyrstu níu mánuði þessa árs eru fleiri en allt árið 2016 og ´17. 

Flestar tilkynningarnar sem bárust fyrstu níu mánuði ársins voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan eða 43,3%. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 28,7% og tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna voru 26,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2020. Hlutfall tilkynninga þar sem heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 1%.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 38,8%. Tilkynningum frá nágrönnum hefur fjölgað mikið á milli ára, þær voru 802 á fyrstu níu mánuðum ársins sem er 39.7% aukning frá því í fyrra.

Í samantekt Barnaverndarstofu kemur fram að rannsóknarviðtölum í Barnahúsi hafi fjölgað úr 163 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 í 228 fyrir sama tímabil í ár. Skýrslutökur í Barnahúsi fyrir dómi voru 149 á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 samanborið við 88 fyrir sama tímabil árið á undan en 91 á fyrstu níu mánuðum ársins 2018.

Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fjölgaði úr 75 í 79 á milli ára og 99 börn fóru í greiningar- og meðferðarviðtöl á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 , en þau voru 84 fyrir sama tímabil árið og undan