
Vilja skýrari áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma
Biðlistar á hjúkrunarheimili lengdust um 150% frá 2011 til 2019, meðal annars vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Á sama tíma fjölgaði hjúkrunarrýmum um 91 þar sem ný rými hafa oft leyst önnur eldri af hólmi.
„Samkvæmt fjármálaáætlun ársins 2020-2024 var talað um að það ætti að fara í fjölgun og endurbætur á 920 hjúkrunarrýmum en í þeirri fjármálaáætlun sem nú var lögð fyrir á alþingi er ekki lengur miðað við þessi 920 rými.“ segir Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Farið sé aftur í eldri áætlanir um fjölgun og endurbætur á 790 rýmum.
Vilja skýrari línur
Þá sé ekki hægt að sjá að fjölgun hjúkrunarrýma sé fjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Að einhverju leyti en ekki öllu. „Við köllum svolítið eftir því kannski að línur skýrist í þeim málum og það sé þá samræmi á milli fjármálaáætlunar, fjárlagagerðar og framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarrýma.“ segir Eybjörg.
Ríkisstjórnin hafi sett sé metnaðarfullar áætlanir um fjölgun hjúkrunarrýma. Hún sé samt farin að hafa áhyggjur af því að þau plön muni ekki ganga eftir þar sem það virðist taka langan tíma að koma heimilum á koppinn þó það sé búið að taka ákvörðun um að byggja þau.