Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Undanþága veitt vegna urðunar á sauðfé úr Skagafirði

06.11.2020 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Umhverfisráðherra hefur veitt undanþágu frá lögum um mat á umhverfisáhrifum og leyft urðun á sauðfé frá búum í Skagafriði sem skorið verður niður vegna riðuveiki. Urðað verður á aflögðum urðunarstað við Skarðsmóa í Skagafirði. Það er mat umhverfisráðuneytisins að það varði almannaheill að hraða fögrun dýranna og hún mæti því skilyrðum um undanþágu.

Urðun riðusmitaðs úrgangs fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Óheimilt er að gefa út starfsleyfi til framkvæmdarinnar fyrr en mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir, eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld.

Lögin heimili ráðherra að veita undanþágur 

Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er bent á að lög um mat á umhverfisáhrifum heimili ráðherra í sérstökum undantekningartilvikum, og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að undanþiggja tiltekna framkvæmd mati á umhverfisáhrifum varði framkvæmdin almannaheill og/eða öryggi landsins. „Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur aflað umsagnar Skipulagsstofnunar og tekið ákvörðun um að undanþiggja framkvæmdina lögum um mat á umhverfisáhrifum enda eru uppfyllt skilyrði laga um almannaheil,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Framkvæmd sem varði almannaheill

Þar sem útbreiðsla riðuveiki geti haft alvarlegar félagslegar og hagrænar afleiðingar í sveitum landsins sé það mat ráðuneytisins að skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum séu uppfyllt. Um sé að ræða framkvæmd sem varðar almannaheill og telja verður að markmiði framkvæmdarinnar verði ekki náð verði hún háð mati á umhverfisáhrifum, enda mikilvægt að hefta útbreiðslu veikinnar sem fyrst.

Riðufé áður urðað í Skarðsmóum

Notkun urðunarstaðarins við Skarðsmóa í Skagafirði var hætt árið 2012. Að mati Skipulagsstofnunar eru umhverfisáhrif urðunar að Skarðsmóum mikið til þekkt, enda var þar starfræktur urðunarstaður til fjölda ára. Talið er að um 250.000 tonn af úrgangi hafi verið urðuð á staðnum á tímabilinu 1987 til 2012 og að riðufé hafi áður verið urðað á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun fór sýnataka í Skarðsmóum síðast fram árið 2016 og niðurstöður hennar benda til að mengunar gæti ekki frá urðunarstaðnum.