
Þriðja bylgjan hefur minni áhrif á neyslu en sú fyrsta
Þetta kemur fram í samantekt á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Landsframleiðsla, verðmæti allra vara og allrar þjónustu sem framleidd er, dróst saman um 9 til 14 milljarða á tímabilinu frá mars og fram í maí.
Það er helst álitið vera vegna minni neyslu einstaklinga í samkomubanninu sem þá stóð. Eftir að slakað var á takmörkunum yfir sumarmánuðina jókst landsframleiðsla um nærri sömu fjárhæð.
Kortavelta dróst saman í október en hvergi nærri jafn mikið og var í vor, til 24. október minnkaði hún um 1% en þegar jafn langt var liðið af fyrstu bylgju faraldursins hafði mælanlegur samdráttur náð 21 af hundraði.
Sóttvarnaraðgerðir í þriðju bylgju faraldursins hafa áhrif á kaup á þjónustu á borð við veitingar og afþreyingu en samkvæmt tölum frá í september voru þau áhrif mun minni en var í vor.
Samtímis er meira verslað í raftækja- og fataverslunum svo dæmi séu tekin. Svipað var uppi á teningnum í vor þegar vöxtur var í kaupum á dagvöru og raftækjum en dróst saman í flestum öðrum flokkum.
Umferð á höfuðborgarsvæðinu er nú fimmtungi minni en í venjulegu ári, sem er svipað og greina mátti þegar jafn langt hafði liðið af fyrstu bylgju faraldursins.
Á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að vísbendingar séu uppi um að færri séu á ferðinni á virkum dögum en um helgar. Það er talið koma til vegna aukinnar fjarvinnu fólks, þess að færri eru á ferðinni vegna sóttvarnaraðgerða og minni umsvifum í verslun og þjónustu.