Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þórólfur hyggst leggja til nýjar reglur á landamærunum

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinnur nú að gerð nýs minnisblaðs til heilbrigðisráðherra þar sem lagt er til að leita leiða til að sem flestir sem koma til landsins fari í skimun.

Samkvæmt sóttvarnatakmörkunum sem tóku gildi 19. ágúst geta farþegar sem koma til landsins valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. 

Það er seinni kosturinn sem Þórólfur hyggst leggja til að verði endurskoðaður.

Hann segir ekki liggja fyrir hvenær hann muni ljúka við gerð minnisblaðsins eða hvenær ráðherra fái það í hendur. „En ég stefni að því að það verði sem fyrst og mun leggja til við ráðherra að breyttar reglur taki gildi sem fyrst.“

Að sögn Þórólfs er óvíst hvort hægt verði að setja það skilyrði að allir, sem komi hingað til lands, fari í skimun og hafi ekkert annað val. Huga þurfi að alþjóðlegum skuldbindingum í þessu efni. „Það er eitt af því sem er verið að skoða,“ segir Þórólfur.

Hann segir að mikil þörf sé á að breyta núverandi fyrirkomulagi. „Það er nóg að nokkrir sleppi í gegn og virði ekki sóttkví til að faraldurinn fari af stað. Það hafa vaknað grunsemdir um að fólk sé ekki að virða sóttkvína og þær hafa verið staðfestar í allnokkrum tilfellum. Við viljum tryggja að sem flestir fari í skimun.“