Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjörnustríðsleikföng seld fyrir metfé

06.11.2020 - 08:26
epa01439140 R2-D2 arrives for the premiere of 'Star Wars: The Clone Wars' in Los Angeles, California, USA, 10 August 2008. 'Star Wars: The Clone Wars' is the first ever animated feature from Lucasfilm Aniimation.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Safnarar eru áfjáðir í leikföng og annan varning sem tengist kvikmyndunum um Stjörnustríð. Par á mið Englandi datt óvænt í lukkupottinn á dögunum þegar þau uppgötvuðu að þau höfðu erft mikinn Stjörnustríðs-fjársjóð.

Allt frá því að myndirnar um baráttu góðs og ills, fyrir löngu síðan, í vetrarbraut í órafjarlægð slógu rækilega í gegn á áttunda áratug síðustu aldar hefur margskonar varningur tengdur þeim verið seldur í leikfangabúðum heimsins.

Helstu hetjur og skúrkar, geimför og tækjabúnaður úr stjörnustríðsheimi hafa yfirleitt að lokum endað í glatkistunni. Enskt par varð því mjög undrandi þegar haugur af plastpokum sem þau erfðu eftir nágranna sinn reyndist innihalda fjársjóð leikfanga tengdum Stjörnustríðsmyndunum.

Mörg þeirra eru orðin fjörgömul, einhver þeirra afar sjaldgæf og öll í upprunalegum umbúðum. Uppboðshaldarinn Christ Aston segir í samtali við The Times að þótt raki hafi komist að sumum umbúðanna hafi þarna verið að finna eitt merkilegasta safn Stjörnustríðsleikfanga sem hann hafi nokkurn tíma séð.

Uppboðshús Astons seldi gripina fyrir furðulostið fólkið og fengu færri en vildu. Til dæmis seldist Glyrnungur, eða Jawa, í upprunalegum umbúðum fyrir 27 þúsund pund enda talið að innan við tíu slíkir séu til í heiminum. 

Nokkrar fígúrur úr Return of the Jedi sem kostuðu eitt og hálft pund út úr búð á níunda áratugnum voru keyptar á 1.400 pund. Svo fór að uppboðshúsið seldi öll leikföngin fyrir metfé, sem nemur um 400 þúsundum punda eða ríflega sjötíu og tveimur milljóna íslenskra króna.