Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segja af og frá að Navalny hafi verið byrlað eitur

06.11.2020 - 13:06
epa08686361 An undated, recent handout photo made available by Russian opposition leader Alexei Navalny via his Instagram site shows Navalny (L) together with his wife Yulia Navalnaya at the Charite hospital in Berlin, Germany, issued 21 September 2020. Navalny is treated at the Charite hospital in Berlin since 22 August 2020 for being poisoned with a nerve agent from the Novichok group. In accompanying text Navalny said he was able to breathe on his own all day.  EPA-EFE/ALEXEI NAVALNY HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Alexei Navalny ásamt eiginkonu sinni Júlíu á svölum Charite-sjúkrahússins í Berlín. Mynd: EPA-EFE - Alexei Navalny
Rússneskir embættismenn fullyrða að efnaskiptavandi og langvinn briskirtilsbólga hafi hrjáð stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny og valdið miklum veikindum hans í ágúst. Alls ekki hafi verið eitrað fyrir honum líkt og var niðurstaða rannsóknastofa í Frakklandi, Svíþjóð og víðar.

Navalny veiktist illa um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu. Hann var fluttur til Þýskalands til umönnunar þar sem sérfræðingar ákvörðuðu að eitrað hefði verið fyrir honum með taugaeitrinu Novichok.

Efnið varð til á tímum Sovétríkjanna og rússneskir flugumenn notuðu það við morðtilraun gegn leyniþjónustumanninum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans fyrir tveimur árum.

Rússnesku embættismennirnir fullyrða jafnframt að hvorki hafi fundist eiturefni á fötum Navalnys né í hótelherbergi hans eða á flugstöðvarkaffihúsinu þar sem hann staldraði við á leið í flug.

Evrópusambandið hefur beitt nokkra háttsetta rússneska embættismenn refsiaðgerðum vegna málsins og þar á bæ er staðhæft að útilokað sé að eitrað hafi verið fyrir Navalny án hlutdeildar leyniþjónustunnar, varnarmálaráðuneytisins og forsetaskrifstofu Rússlands.

Navalny hefur staðhæft að Vladimir Pútín sjálfur beri ábyrgð á atlögunni en stjórnvöld í Kreml hafa alltaf þvertekið fyrir aðild forsetans.

Forstjóri Utanríkisleyniþjónustu Rússneska Sambandsríkisins, Sergei Naryshkin sagði fyrr í dag að ríki Atlantshafsbandalagsins hefðu vélað um að nota stjórnarandstöðuleiðtogann sem einskonar „upphafið fórnarlamb“ til að ýta undir áframhaldandi mótmæli í landinu.

Navalny skrifaði á Twitter á honum þætti „skondið“ að báðar framangreindar yfirlýsingar birtust sama daginn, „NATÓ virðist hafa fengið mig til að taka upp á að láta ofan í mig banvænan mat,“ skrifaði hann. Navalny kveðst staðráðinn í að snúa aftur til Rússlands frá Þýskalandi um leið og hann hefur náð nægum bata.