
Segja af og frá að Navalny hafi verið byrlað eitur
Navalny veiktist illa um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu. Hann var fluttur til Þýskalands til umönnunar þar sem sérfræðingar ákvörðuðu að eitrað hefði verið fyrir honum með taugaeitrinu Novichok.
Efnið varð til á tímum Sovétríkjanna og rússneskir flugumenn notuðu það við morðtilraun gegn leyniþjónustumanninum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans fyrir tveimur árum.
Rússnesku embættismennirnir fullyrða jafnframt að hvorki hafi fundist eiturefni á fötum Navalnys né í hótelherbergi hans eða á flugstöðvarkaffihúsinu þar sem hann staldraði við á leið í flug.
Evrópusambandið hefur beitt nokkra háttsetta rússneska embættismenn refsiaðgerðum vegna málsins og þar á bæ er staðhæft að útilokað sé að eitrað hafi verið fyrir Navalny án hlutdeildar leyniþjónustunnar, varnarmálaráðuneytisins og forsetaskrifstofu Rússlands.
Navalny hefur staðhæft að Vladimir Pútín sjálfur beri ábyrgð á atlögunni en stjórnvöld í Kreml hafa alltaf þvertekið fyrir aðild forsetans.
Forstjóri Utanríkisleyniþjónustu Rússneska Sambandsríkisins, Sergei Naryshkin sagði fyrr í dag að ríki Atlantshafsbandalagsins hefðu vélað um að nota stjórnarandstöðuleiðtogann sem einskonar „upphafið fórnarlamb“ til að ýta undir áframhaldandi mótmæli í landinu.
Navalny skrifaði á Twitter á honum þætti „skondið“ að báðar framangreindar yfirlýsingar birtust sama daginn, „NATÓ virðist hafa fengið mig til að taka upp á að láta ofan í mig banvænan mat,“ skrifaði hann. Navalny kveðst staðráðinn í að snúa aftur til Rússlands frá Þýskalandi um leið og hann hefur náð nægum bata.