Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir hönnun húsa stríða gegn náttúrulögmálum

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Hönnun húsa stríðir oft gegn náttúrulögmálum og eftirliti með myglu er ábótavant. Þetta segir umhverfishagfræðingur. Rafsegulbylgjur frá raftækjum hafi einnig áhrif á bæði menn og myglusveppi.

Fjallað var um myglu í húsum í fréttaskýringaþættinum Kveik í gærkvöld. Steinn Kárason umhverfishagfræðingur ritaði bók um myglu í húsum. Undanfarin ár hafa komið upp fjölmörg dæmi um stórfellda myglu í húsum og víða er pottur brotinn. Steinn segir að margir samverkandi þættir hafi breyst.

„Hönnun húsa hefur breyst mjög mikið síðustu áratugi og í mörgum tilvikum stríðir hönnunin gegn náttúrulögmálum. Byggingaaðferðirnar eru aðrar. Efnisvalið hefur líka breyst, hraðinn er orðinn mjög mikill víða og ég hef það á tilfinningunni að eftirliti sé ábótavant.“ segir Steinn.

Hús séu mun þéttari og meira einangruð en áður og það ýti undir áhættuþætti í votrýmum, eins og eldhúsum, baðherbergjum og þvottahúsum. Mikilvægt er að lofta vel út úr þeim rýmum og þrífa reglulega.
Steinn segir að erlendar rannsóknir styðji þá kenningu að rafsegulbylgjur frá netbeinum, útvarpi og sjónvarpi ýmist veiki mótstöðu fólks eða espi vöxt myglusveppa í umhverfinu. 

„Með því að setja málmbúr yfir ætiskálar fyrir myglusveppina hefur komið í ljós að þar sem að málmbúrin eru yfir ætisskálunum er minni vöxtur í myglusveppaætinu heldur en þar sem ekki er málmbúr yfir.“ segir Steinn.