
Reyna að forðast neyðarástand í verkfalli hjá Gæslunni
Samningar flugvirkjanna hafa verið lausir síðan um áramót og verkfallið var samþykkt í atkvæðagreiðslu fyrir tveimur vikum. Georg segir að ekki sé ljóst hvenær áhrifa verkfallsins fari að gæta. „Þau geta komið fram í dag eða á morgun eða á næstunni. En fyrst og fremst lýtur vandinn að því að ef þyrla bilar, þá getur reynst erfitt að koma henni aftur í nothæft stand,“ segir Georg.
Að sögn Georgs eru spilmenn í áhöfn undanþegnir verkfallinu, en þeir geti komið þyrlunum af stað og gengið frá þeim eftir flug. „En það er óvíst hvað meira þeir geta gert ef upp koma bilanir eða annað slíkt. Við erum í þeirri slæmu stöðu að hafa einungis eina vél tiltæka núna hinar tvær eru í skoðun. Meðan á verkfalli stendur er ekki við því að búast að það verði unnið neitt í þeim.“
Georg segir að dragist verkfallið á langinn, gæti staðan orðið mjög alvarleg. Allt verði gert til að forða neyðarástandi. „Það er takmarkað sem við getum gert en vonumst til og óskum eftir að aðilar skoði þessi mál mjög vel. Og leiti allra leiða til að ná samkomulagi.“