Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Öllum íbúum Liverpool boðið upp á ítrekaðar skimanir

epa08800202 British Army soldiers walk around Pontins holiday camp in Southport where they are based ahead of commencing operation moonshot which intends to offer thousands of people in Liverpool a Covid-19 test in Liverpool, Britain, 05 November 2020.  EPA-EFE/PETER POWELL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Allir íbúar Liverpool-borgar, hálf milljón talsins, verða frá og með deginum í dag skimaðir við COVID-19. Borgin verður þar með sú fyrsta á Englandi til að bjóða upp á slíkt en tilgangurinn er að koma í veg fyrir að sjúkrahús borgarinnar yfirfyllist af kórónuveiruskjúklingum.

Ætlunin er að öllum sem búa eða starfa í Liverpool bjóðist endurteknar skimanir næstu tvær vikurnar, einu gildir hvort fólk hefur einkenni eða ekki. Í síðasta mánuði var þegar tekið til við að hefta samgang íbúa borgarinnar vegna mikillar fjölgunar tilfella og hið sama á við nágrannaborgina Manchester.

Joe Anderson, borgastjóri í Liverpool, kveðst vongóður um að átakið, sem kennt er við tunglskot, bjargi mannslífum og verði til þess að hægt verði að draga úr hömlum innan borgarinnar.

Matthew Aston, yfirmaður lýðheilsumála í borginni, segir í samtali við BBC að mögulegt sé að láta átakið standa lengur en hinar fyrirhugðu tvær vikur. Áríðandi sé að það standi nógu lengi til að hægt sé að greina árangur af því.

Með nýrri aðferð, ekki ósvipaðri og notuð er við þungunarpróf er möguleiki á að niðurstöður fáist innan tuttugu mínútna. Skimunarstöðvarnar eru vítt og breitt um borgina; í skólum, háskólum, í skrifstofuhúsnæði og á hjúkrunarheimilum. Um 2.000 starfsmenn úr herliði landsins munu aðstoða við verkið.

Bretlandseyjar hafa orðið afar illa út í faraldrinum, þar hafa yfir 48 þúsund látist af völdum sjúkdómsins og í gær skall þar á mánaðarlangt útöngubann. Boris Johnson forsætisráðherra lýsir yfir að verkið sé hafið og kveðst bjartsýnn á að hægt verði að beita sömu aðferð víðsvegar um land í baráttunni við útbreiðslu veirunnar.