Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Náttúruleg leiksvæði bæta ónæmiskerfið

06.11.2020 - 16:00
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Stefán Gíslason fjallaði í umhverfispistli í Samfélaginu á Rás 1 um mikilvægi þess að börn leiki sér á úti í náttúrunni en rannsóknir sýna að það hafi mikil áhrif á ofnæmiskerfið og byggi upp náttúrulegar varnir líkamans.

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á stuttum tíma. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances fyrr í þessum mánuði.

Sá lærdómur sem hægt er að draga af niðurstöðum finnsku vísindamannanna um jákvæð áhrif fjölbreyttrar náttúru á ónæmiskerfið gæti komið að góðum notum í baráttunni gegn sjálfsofnæmissjúkdómum af ýmsu tagi. Á Vesturlöndum hefur tíðni slíkra sjúkdóma farið vaxandi síðustu árin, en sjálfsofnæmissjúkdómar einkennast af því að líkaminn virðist snúast gegn sjálfum sér í misgripum. Í þennan flokk falla m.a. sjúkdómar á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD). Ein helsta tilgátan sem uppi er um ástæður aukinnar tíðni sjúkdóma af þessu tagi er svonefnd „þrifnaðartilgáta“. Þessi tilgáta gengur út á að nú á tímum umgangist börn fábreyttari örverur en áður var. Þar af leiðandi fái ónæmiskerfi þeirra ekki næg tækifæri til að þroskast og kunni síður að bregðast við áreiti síðar á ævinni. Með öðrum orðum sé meiri hætta á að ónæmiskerfið geri mistök ef þjálfun þess hefur ekki verið sinnt.

Rannsókn Finnanna sem hér er til umfjöllunar er ekki sú fyrsta sem sýnir fram á tölfræðilega fylgni milli þess að vera útsettur fyrir fjölbreyttum örverum og þess að þróa með sér öflugt ónæmiskerfi. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem sýnt er fram á orsakasamhengi þessara þátta með því að breyta umhverfi barna og fylgjast með áhrifum breytingarinnar á ónæmiskerfið. Niðurstöðurnar gefa til kynna að hægt sé að styðja við þroskun ónæmiskerfisins með tiltölulega einföldum breytingum á umhverfi barna í þéttbýli.

Rannsókn Finnanna náði til 75 barna í tveimur borgum í Finnlandi, þannig að úrtakið var vissulega í minna lagi. Niðurstöðurnar voru hins vegar svo afgerandi að Aki Sinkkonen hjá Náttúruauðlindastofnun Finnlands, sem stjórnaði rannsókninni, segir hana geta rutt brautina fyrir nýjar forvarnaraðgerðir til að bregðast við heimsfaraldri ofnæmissjúkdóma.

Börnin 75 sem þátt tóku í rannsókninni voru á aldrinum þriggja til fimm ára og gengu í 10 mismunandi leikskóla í þessum tveimur borgum sem um ræðir. Við fjóra af þessum skólum var leiksvæðum breytt á þann veg að jarðvegi úr náttúrulegu umhverfi, með litlum runnum, bláberjalyngi, krækiberjalyngi og mosa var komið fyrir þar sem áður voru bara hellur, sandur og möl. Hinum leikskólalóðunum var hins vegar ekki breytt. Börnin voru að meðaltali 90 mínútur á hverjum degi úti á lóðinni og voru þá hvött til að leika sér í gróðrinum og moldinni. Reyndar þurfti ekki að hvetja þau mikið, því að þessi umbreyttu svæði þóttu meira spennandi en það sem fyrir var. Kostnaður við breytingarnar nam um 5.000 evrum á hverja leikskólalóð, eða sem svarar til um það bil 800.000 íslenskra króna. Þessi upphæð var lægri en árleg kostnaðaráætlun fyrir viðhald lóðanna.

Í upphafi rannsóknarinnar voru gerðar ýmsar mælingar á örveruflóru og tilteknum þáttum í blóði barnanna og svo aftur 28 dögum síðar. Meðan á rannsókninni stóð voru öllum börnunum gefnar sambærilegar máltíðir og þau örfáu börn sem fengu fæðubótarefni með góðgerlum heima hjá sér voru ekki höfð með. Að öðru leyti var eðlilega ekki hægt að útiloka breytilegar aðstæður á heimilum, en að mati höfunda rannsóknarinnar gat afgerandi munur á niðurstöðum ekki skýrst af tilviljanakenndum breytileika heima fyrir.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að eftir þessa 28 daga var fjölbreytileiki örveruflórunnar á húð barnanna á náttúrulegu leiksvæðunum um þriðjungi meiri en barnanna á mölinni og jafnframt mældist marktækur munur á fjölbreytileika þarmaflórunnar. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Fjölbreytileiki örveruflóru þarf ekkert endilega að vera ávísun á öflugt ónæmiskerfi, en hins vegar gáfu mælingar á próteinum og frumum sterka vísbendingu í þá átt. Gera þarf frekari rannsóknir í lengri tíma til að geta fullyrt að tíðni ofnæmissjúkdóma verði lægri síðar á ævinni hjá náttúrusvæðabörnunum, en vísbendingarnar sem fram komu í þessari stuttu og einföldu rannsókn þykja mjög afgerandi.

Þess má að lokum geta að í skýrslu Konunglega breska lýðheilsufélagsins (Royal Society for Public Health) sem kom út á síðasta ári var komist að þeirri niðurstöðu að útivera í náttúrunni væri mikilvægur liður í að byggja upp sterkt ónæmiskerfi, en að sjálfsögðu væri hreinlæti eftir sem áður afar mikilvægt við matargerð og máltíðir. Hefði þessi skýrsla verið skrifuð árið 2020 hefði eflaust líka verið minnst á mikilvægi hreinlætis fyrir sóttvarnir. Það breytir hins vegar engu um að nálægð við náttúruna á unga aldri gæti verið lykilatriði í því að byggja upp varnir líkamans síðar meir.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn