Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil ásókn í framhaldsnám við Háskóla Íslands

06.11.2020 - 10:41
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Um tvöfalt fleiri umsóknir um framhaldsnám á næsta vormisseri hafa borist Háskóla Íslands nú en var á sama tíma 2019, eða tæplega 1.100. Frestur til að sækja um í framhaldsnámi rann út í lok október.

Hátt í tólf þúsund umsóknir bárust Háskólanum um grunn- og framhaldsnám en ennþá er opið fyrir umsóknir um grunnnám. Það er met og því reiknað með að nemendur við skólann verði vel á sextánda þúsund á næsta misseri.

„Jafnframt gerum við ráð fyrir auknum stuðningi stjórnvalda vegna nýnema enda bendir allt til að nemendum fjölgi um fimmtung. Það er gríðarleg fjölgun,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands er ályktað að þennan mikla fjölda megi skýra með áhrifum kórónuveirufaraldursins, að margt fólk velji að leita sér aukinnar menntunar meðan atvinnuástandið er erfitt.