Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mágkona og mágur kærðu hvort annað eftir árshátíð

06.11.2020 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði í dag konu af ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum fyrir að slá mág sinn á aftanverðan hálsinn á árshátíð. Kæran var lögð fram rúmum mánuði eftir að máginum var birt ákæra fyrir að kýla konuna í andlitið á dansgólfi þessarar sömu árshátíðar.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi konan neitað sök og sagt kæruna ranga.

Hún hafi hitt mág sinn á dansgólfinu þetta kvöld, hallað sér upp að honum og sagt honum að drulla sér í burtu. Hann hafi brugðist við með því að kýla hana í andlitið. Fyrir dómi bætti hún því við að hún hefði hitt hann nokkrum sinnum umrætt kvöld og gefið honum „fokk merki“.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að konan er gift bróður mannsins og að þau hafi verið góðir vinir þar til fyrir þremur árum þegar upp úr vinskapnum slitnaði vegna máls sem ekki er útskýrt frekar í dómnum. 

Hún sagði mág sinn hafa trompast eftir þetta og ítrekað haft í hótunum við hana sem hún hafi tilkynnt til lögreglu.

Mágurinn hafði aðra sögu að segja fyrir dómi. Mágkona hans hefði lengi verið með þráhyggju gagnvart honum og léti hann ekki í friði. Hún hefði „hjólað í núverandi konu“ hans og nær alla aðra hans nákomnustu.  

Héraðsdómur bendir á að mágurinn hafi ekki leitað til læknis eftir árásina og hafi sjálfur sagt fyrir dómi að sýnilegir áverkar hefðu verið litlir sem engir. Þá þyrfti að horfa til þess að kæran hefði verið lögð fram rúmu ári eftir meinta árás og að þá hefði mágkona hans verið búin að kæra hann fyrir líkamsárás.

Ekki væri heldur hægt að líta fram hjá því að greinileg óvild ríkti milli þeirra og að eina vitnið sem styddi frásögn mannsins væri kona sem væri tengd honum nánum skyldleikaböndum.  Var konan því sýknuð.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV