Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Logi verður áfram formaður Samfylkingarinnar

Logi Einarsson á landsfundi Samfylkingarinnar 2020
 Mynd: Samfylkingin - Ljósmynd
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var einn í framboði til formanns á rafrænum landsfundi flokksins sem settur var síðdegis í dag og var endurkjörinn með 96,45 % atkvæða.

Í ræðu sem Logi hélt eftir að niðurstöður kjörsins lágu fyrir þakkaði hann það traust sem honum hefði verið sýnt og lofaði að rísa undir þeirri ábyrgð sem honum væri falin sem fælist meðal annars í að leiða flokkinn inn í kosningar eftir tæpt ár.

„Lífskúnstnerinn, Vopnfirðingurinn og Alþingismaðurinn Jónas Árnason sagði einhverju sinni í texta að lífið væri lotterí – og það gilti að taka þátt í því.  Á dauða mínum átti ég frekar von fyrir nokkrum árum en að standa hér í dag – En hér er ég og er ótrúlega glaður yfir því að lífið hafið borið mig hingað – kynnt mig fyrir ykkur og í starf fyrir stjórnmálahreyfingu sem ég brenn fyrir,“ sagði Logi í ræðu sinni.

„En líkt og Siglufjarðar-Geiri í kvæðinu hef bæði ég og flokkurinn sopið ýmsa fjöruna – og eigum eflaust eftir að upplifa ýmislegt enn – en besta ráðið við því er að sýna æðruleysi og kjark. Við erum komin á lappir eftir tímabundna byltu og ætlum okkur enn meira,“ sagði Logi og sagði að í sínum huga væri stjórnmálastarf hópvinna, ekki mætti missa sjónar á því.