Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hvetur Dalvíkinga til að takmarka samskipti um helgina

06.11.2020 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sveitastjóri Dalvíkurbyggðar minnir á að næstu dagar séu afar mikilvægir í baráttunni við kórónuveiruna. Hún hvetur íbúa sveitarfélagsins til að sýna þolinmæði.

24 eru nú í einangrun með staðfest smit í Dalvíkurbyggð og 45 eru í sóttkví. Langflest smitin eru hjá íbúum á Dalvík, eða 22.

Undanfarna daga hefur COVID-19 aðeins greinst hjá fólki í sveitarfélaginu sem þegar er í sóttkví. Þrátt fyrir það minnir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri á að komandi helgi og næstu dagar séu gríðarlega mikilvægir í baráttunni við að losna við veiruna úr samfélaginu.

„Því ítreka ég við íbúa að allir haldi reglur og takmarki enn allan samgang nema við sína nánustu,“ segir Kartín í pistli á heimasíðu Dalvíkurbyggðar. „Ef við ætlum að ná fullum tökum á faraldrinum þá verður fólk að halda þetta út.“