Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hrósum ekki sigri strax þótt smitum hafi fækkað

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Taka verður sóttvarnir mjög alvarlega næstu þrjár vikur segir forsvarsmaður spálíkans háskólans. Ekki sé hægt að fagna sigri þótt mörg jákvæð teikn séu á lofti. 

Pössum okkur næstu þrjár vikurnar

Nítján smit greindust í gær. Síðast greindust nítján smit 16. september, fyrir rúmum sjö vikum. Sjö af þeim nítján sem greindust í gær voru ekki í sóttkví. Fyrir viku greindust 56 smit, en síðan þá hafa þau ekki farið yfir þrjátíu og í dag undir tuttugu. 

Getum við farið að anda léttar?

„Já, en miðað við fyrstu bylgjuna þegar við vorum kannski á svipuðum slóðum 10. apríl einhvers staðar þar að þá eigum við samt eftir þrjár vikur,“ segir Thor Aspelund próf í líftölfræði og forsvarsmaður spálíkans Háskóla Íslands.

„Núna er faraldurinn í vexti allt í kringum okkur þ.a. að þá er um að gera að við verðum að vera mjög passasöm næstu þrjár vikur halda þetta út fram að mánaðamótum, taka þetta mjög alvarlega.“

Ekki hægt að sætta sig við svona mörg smit

Hann segir að þótt smitin í gær hafi verið fá miðað við dagana á undan að þá sé það há tala:

„Það er ekkert sem er hægt að sætta sig neitt við. Ef það er hægt að sætta sig við einhver smit þá verður það að vera fimm, ekki meira.“

Smitstuðullinn lækkar

Markmiðið út frá tölfræðinni er að ná smitstuðli undir einn, segir Thor. Ef smitstuðull er einn þýðir það að einn einstaklingur smitar einn annan á meðan hann er smitandi. Næsta spálíkan kemur á þriðjudaginn. En smitstuðullinn hefur lækkað vel síðan í spálíkaninu í síðustu viku. 

„Núna er þetta akkúrat á mörkunum. Efri mörkin í líkindabilinu ná rétt yfir einn. Þannig að við getum nefnilega ekki alveg hrósað sigri strax. Og við verðum bara aðeins að bíða þolinmóð þó það séu mörg jákvæð merki á lofti en það er samt ekki hægt að fagna sigri.“