Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur vart undan að sauma grímur fyrir íþróttafélög

06.11.2020 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Saumastofa Henson hefur vart undan að framleiða grímur. Þar er nú unnið fram á kvöld til að anna eftirspurn. Fjölmörg íþróttafélög hafa á undanförnum vikum selt grímur í fjáröflunarskyni og eru dæmi um að félög hafi selt yfir þúsund grímur.

Vinna fram á kvöld til að anna eftirspurn

Eftirspurn eftir andlitsgrímum hefur aukist mikið eftir að hertar sóttvarnareglur tóku gildi. Margir kjósa einnota grímur en sá hópur sem vill fjölnota grímur stækkar hratt. Ef marka má þá sölu sem verið hefur á fjölnota grímum hjá saumastofu Henson. 

„Við höfum varla undan við að sauma þetta. Erum hérna fram eftir öllu og saumum um helgar til að anna eftirspurn,“ segir Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Henson. 

Algjör sprenging síðustu vikur

Hann segir að salan hafi tekið kipp nú í þriðju bylgju faraldursins. „Við byrjuðum með þetta í vor og þetta fór rólega af stað en svo varð algjör sprenging. Við erum búin að selja verulegt magn af þessu og það eru nokkur þúsund grímur í pöntun hjá okkur.“

Búbót fyrir íþróttafélög

Fjölmörg íþróttafélög hafa á undanförnum vikum selt merktar grímur sem framleiddar eru hjá Henson. Er það gert í fjáröflunarskyni en tekjur íþróttafélaga hafa í mörgum tilfellum dregist mikið saman í faraldrinum. Halldór segir nokkur félög hafa grætt verulegar fjárhæðir á því að selja grímur. „Það er frábært að sjá að íþróttafélögin eru að nýta þetta til að safna peningum, og þetta virðist seljast vel. Það eru dæmi um félög eins og Keflavík sem hafa pantað yfir 1000 grímur.“