Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hafrannsóknastofnun leigir veiðiskip til loðnurannsókna

Mynd með færslu
 Mynd:
Hafrannsóknastofnun hefur auglýst eftir fjórum veiðiskipum til þátttöku í loðnumælingum eftir áramót. Áætlað er að stofnunin fjármagni verkefnið að fullu og útgerðir skipanna beri því engan kostnað.

Í útboðinu er gert ráð fyrir að veiðiskipin fjögur fari, ásamt rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni RE, í tvo leiðangra í janúar og febrúar og þá samtals í 49 daga.

Samstarfið við útgerðina í fastara form

„Við höfum átt mjög gott og farsælt samstarf með útgerðinni, en nú erum við bara að festa þetta í betra form,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun beri allan kostnað

Útgerðir loðnuskipa hafa hingað til borið umtalsverðan kostnað af þátttöku í loðnuleit. Sigurður segir ekki gert ráð fyrir því í þessu samstarfi. „Þetta er hugsað þannig að við berum þennan kostnað. Enda er það skýrt í lögum að það er hlutverk Hafrannsóknastofnunar að mæla stofnstærð nytjastofna og loðnan er þar á meðal.“ Fjármagn sé þó ekki tryggt, en hann segist vongóður um að beiðni stofnunarinnar um 120 milljóna króna viðbótarframlag vegna loðnuleitar verði samþykkt.

Mikilvægt að ná góðri mælingu eftir áramótin

Mælingar hafa sýnt að árgangur ungloðnu, sem yrði veiðistofn vertíðarinnar 2022, er sterkur og gefur góðar væntingar. Hins vegar gekk verr að mæla hrygningarloðnu til veiða á komandi vertíð. „Þannig að við verðum að treysta dálítið mikið á að ná góðri mælingu núna í janúar og febrúar.“