Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gistinóttum fækkar þótt Íslendingar flykkist á hótel

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Gistinóttum hér á landi hefur fækkað um 60 prósent frá því í fyrra. Gistinóttum Íslendinga hefur hins vegar fjölgað um helming. Aðstoðarhótelstjóri segir að það muni miklu að Íslendingar skuli gista á hótelum.

Algjört hrun hefur orðið í komu ferðamanna hingað til lands. Hótelin finna ekki hvað síst fyrir þessu, þar á meðal fosvarsmenn Stracta hótelsins við Hellu sem er eitt allra stærsta hótelið á Suðurlandi.

„Það hefur auðvitað orðið töluverð fækkun á gestum hjá okkur. Þetta eru nánast eingöngu Íslendingar sem eru að gista hjá okkur núna. En við höfum verið lánsöm og þetta hafa verið allt upp undir 200 manns á viku hjá okkur, þangað til síðustu breytingar duttu inn,“ segir Hrafnhildur Steindórsdóttir, aðstoðarhótelstjóri á Stracta hótelinu.

Þótt allt að 200 manns hafi komið á viku segir Hrafnhildur að það sé miklu minna en í venjulegu árferði. Það skipti þó miklu máli að fá einhverja gesti, þannig sé hægt að halda hótelinu opnu og veita fólki vinnu.

Lægra verð

Gistinóttum á hótelum hefur fækkað gífurlega. Á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra voru þær tæplega þrjár og hálf milljón. Á sama tíma á þessu ári innan við ein og hálf milljón. Það er fækkun um 60 prósent. 

Athyglisvert er að bera saman gistinætur Íslendinga og útlendinga. Gistinóttum útlendinga hefur fækkað um rúmlega 70 prósent frá því í fyrra. Á sama tíma hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað um tæplega helming.

Hvað skýrir það að fólk sé yfirleitt að koma?

„Ferðaþráin. Það er enginn að fara til útlanda núna. Fólk er að nýta þessi hótel og það sem hægt er að gera hérna heima.“

Eruð þið að bjóða upp á tilboð? Er lægra verð hjá ykkur núna en venjulega?

„Töluvert lægra verð já.“

Hrafnhildur segir að það hafi strax haft áhrif þegar aðgerðir voru hertar síðast. „Og það fækkar sjálfkrafa bókunum hjá okkur, þetta er í takti,“ segir hún.

Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur, haldið þið að þetta taki við sér aftur?

„Við erum gífurlega bjartsýn. Þetta kemur til með að taka við sér aftur,“ segir Hrafnhildur.