Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm ferlega fín á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Busta Rhymes - Wrath of God

Fimm ferlega fín á föstudegi

06.11.2020 - 13:20

Höfundar

Það er langt síðan við höfum fengið gott rapp í fimmunni en risarnir Busta og Kendrick hafa gæði sem er ekki hægt að líta fram hjá. Auk þeirra er brakandi fersk hljóðblöndun á Deftones, kólumbískt stuðlag frá Ela Minus, kynngimagnaður klúbbari frá krökkunum í PVA og gallsúr sækadelía frá súrheysturnunum í King Gizzard And The Lizard Wizard í boði.

Busta Rhymes með Kendrick Lamar – Look Over Your Shoulder

Rapprisarnir Busta og Kendrick fara yfir málin og líta aðeins inn á við í laginu Look Over Your Shoulder og virðast frekar sáttir en samt yfir meðallagi sperrtir. Lagið er byggt upp í kringum brot af Jackson Five-laginu I'll Be There og er af nýjustu plötu Buddha Busta Ali Baba Rymes, Extinction Level Event 2: The Wrath of God


Deftones – Knife Party (Purity Ring Remix)

Í september sendu Deftones frá sér plötuna Ohms sem hefur lagst vel í lýðinn. Þeir félagarnir hafa síðan verið að hóta remix-plötu af White Pony í tilefni af tuttugu ára afmæli þeirrar frábæru plötu í viðtölum. Sú plata virðist vera að detta í hús því í síðustu viku kom endurgerð Purity Ring á laginu Knife Party en á Black Stallion verða líka endurhljóðblandanir; DJ Shadow, Robert Smith úr Cure, Mike Shinoda úr Linkin Park, Clams Casino, Phantogram og Tourist, þannig að þetta verður veisla.


Ela Minus – Megapunk

Lag hinnar kólumbísku Ela Minus, Megapunk, er búið að vera að detta inn og út af hinum ýmsu lagalistum síðan í sumar og virðist loksins vera að ná í gegn enda frábært lag. Ela gefur út þessa dagana hjá því goðsagnakennda fyrirtæki Domino og lagið er einn af hennar fyrstu sönglum þar á bæ.


PVA með Mura Masa – Talks

Lundúnatríóið PVA ratar nú í fimmuna í annað skipti á árinu en lag þeirra Divine Intervention var mikið tekið fyrir nokkrum mánuðum. Nú hafa þau fengið súperpródúserinn og fyrrverandi undrabarnið Mura Masa til að snúa nokkrum tökkum fyrir sig og útkoman er partýblaðran Talks.


King Gizzard And The Lizard Wizard – Automation

Melirnir frá Melbourne í sækadelíuverksmiðjunni King Gizzard And The Lizard Wizard eru að fara senda frá sér sína sextándu plötu og sama dag kemur líka út tónleikaplata. Eins og lesendur Fimmunnar vita eru King Gizzard And The Lizard Wizard eitt allra hressasta bandið í bransanum og til þess að smita aðdáendur af sækadelíunni og fá þá í költið gáfu þeir vinnufælana af laginu og myndbandinu til að fólk gæti endurhljóðblandað og gert myndband af Automation.


Fimman á Spottanum