Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Átta COVID-sjúklingar lagðir á Landspítalann í gærkvöld

06.11.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Mikið álag er nú á Landspítalanum og í gærkvöld voru lagðir þar inn átta sjúklingar með COVID-19, segir Víðir Reynisson. Aðeins nítján smit greindust í gær. Ein vika hefur nú liðið þar sem fá smit hafa greinst. 

Síðasta föstudag voru greind 56 smit. Síðan þá hafa þau ekki farið yfir þrjátíu og fyrst í dag undir tuttugu. Síðast greindust 19 smit 15. september eða fyrir rúmum sjö viku. Sjö af nítján kórónuveirusmituðum í gær voru utan sóttkvíar. 

„Við sjáum það að það er á niðurleið og það er jákvætt. Það er alveg ljóst að samfélagslegi svona mátturinn er greinilega að skila sér í því að við erum að fara að byrja að sjá árangur af því sem allir ákváðu að taka þátt í,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Þetta þýðir þá líka væntanlega það að þessi hópsýking sem að varð á Landakoti og afleiðingar hennar að það er verulega að draga úr því?

„Já, við erum samt sem áður ennþá að sjá á hverjum einasta sólarhring einhver smit tengd þessum hópsýkingum og svo erum við líka núna að horfa á það að það eru ansi margir á Dalvík sem eru að fara í prófun í gær og í dag sem eru að ljúka sóttkví þ.a. það er svona eins og við sögðum í gær. Það er svona ákveðin ögustund í þessu núna varðandi þetta og á sama tíma erum við að horfa á álagið í sjálfu sér frekar meira á Landspítalanum heldur en minna.“

Víðir segir að hluti ástæðu þess að hvatt er til að fólk haldi sig heima við um helgina vera þá að draga úr líkum á því að það verði slys og aðrir óvæntir atburðir sem myndu raska verulega starfsemi spítalans: 

„Það komu átta ný tilfelli þar í gærkvöldi á einu bretti víðs vegar að. Þannig að það var erfitt. Og það er búinn að vera erfiður dagur í dag á Landspítalanum.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV