Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill að Ísland viðurkenni sjálfstæði Nagorno Karabakh

Birgir Þórarinsson fyrir framan dómkirkjuna í bænum Shushi í Karabakh. Tvær eldflaugaárásir voru gerðar á kirkjuna með 3 klukkustunda millibili á meðan konur, börn og eldra fólk hélt til í kjallara kirkjunnar til að leita skjóls.
 Mynd: Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins vill að Ísland viðurkenni sjálfstæði héraðsins Nagorno Karabakh. Önnur ríki myndi þá fylgja í kjölfarið, alþjóðasamfélagið vakna til lífsins og þannig komið í veg fyrir þjóðarmorð í héraðinu.

Birgir hefur dvalið í héraðinu undanfarna daga ásamt Majed El Shafie stofnanda mannúðarsamtakanna One Free World International. Til stóð að þangað færu, ásamt þeim, sendinefnd þingmanna frá Kanada og sendiherra Bandaríkjanna á vegum stríðsglæpa. Þeir heltust úr lestinni en Birgir og Majed El Shafie ákváðu að halda sínu striki.

Nagorno Karabakh er að mestu byggt og stjórnað af Armenum, en við fall Sovétríkjanna féll það innan landamæra Aserbaídsjan. Þar búa um 150 þúsund manns. Birgir segir ástandið þar afar slæmt, mun verra en hann hélt.

Þeir heimsóttu nokkra bæi og ræddu ítarlega við heimamenn, fámennt sé á götum, fjöldi fólks þori ekki heim og hafist við í loftvarnarbyrgjum, einkum á nóttunni.

Enginn sé í raun óhultur. Birgir segir að loftvarnarflautur hafi farið í gang oft á nóttunni. Í nágrenninu hafi hann heyrt miklar sprengidrunur. Hann hafi frétt af skelfilegum limlestingum á hermönnum og jafnvel líkum.

Kallar eftir nýjum sáttasemjara

Birgir segir stríðið öðruvísi en fyrri stríð, það sé tæknistríð. Aserar notist við dróna sem valdi fólki mikilli skelfingu. Hann segir aðkomu Tyrkja einnig forkastanlega. Þeir hafi flutt 4.000 íslamista til landsins sem séu í raun launaðir hryðjuverkamenn í þjónustu Asera. Það hafi handsamaðir liðsmenn þeirra sveita staðfest við yfirheyrslur.

Í samtali Birgis við ráðamenn í héraðinu hafi hann orðið var við mikla þreytu á ástandinu. Þeir vilji strax fá fulltingi friðargæsluliðs á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hann kvaðst jafnframt hafa þungar áhyggjur af þögn alþjóðasamfélagsins í málefnum héraðsins. Hinn svokallaði Minsk-hópur, samansettur af fulltrúum Rússa, Frakka og Bandaríkjamanna, hafi reynt að miðla málum um 28 ár skeið án árangurs.

Á blaðamannafundi sem Birgir sat ásamt Majed El Shafie og Kanadamönnunum og Bandaríkjamanninum um fjarfundabúnað lagði hann til að óháðir aðilar sem nytu trausts yrðu kallaðir til í staðinn. Heimamenn hafi tekið undir það, segir Birgir.