Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verðum að horfa út úr kófinu

05.11.2020 - 17:41
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að aukin skattlagning sé ekki leiðin út úr kreppunni. Stuðla verði að því að fyrirtæki nái fyrri styrk til að þau geti skilað auknum tekjum í samfélagið. Þetta eigi að hans mati að vera mál málanna í komandi alþingiskosningum.

Samtök atvinnulífsins kynntu í dag tillögur og leiðir til að koma efnahagslífinu aftur á réttan kjöl eftir COVID-19. Mikilvægt á þeirri vegferð sé að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki geti vaxið og dafnað. Lagðar eru fram sex megintillögur. Að endurhugsa þurfi opinberan rekstur, koma á regluverki sem virki og móta skattastefnu sem skapi störf. Undir þeim lið er meðal annars lagt til að tryggingargjaldið verði endurskoðað, fasteignagjöld fyrirtækja verði lækkuð og að virðisaukaskattsþrepið verði lækkað.  SA leggur til að grænar fjárfestingar verið auðveldaðar og nýju samningalíkani verði komið á. 

Samtökin leggja fram sundurliðaðar hugmyndir um menntamál. Þar eru kynntar leiðir til að beina námi að greinum sem geta stuðlað að nýsköpun eða að efla tengsl atvinnulífsins og menntakerfisins.

Áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að samtökin hafi að undanförnu verið í sambandi við atvinnurekendur út um allt land og kannað afstöðu þeirra.

„Það sem við sjáum og kemur mjög skýrt fram er að staðan er sannarlega ekki góð. Það sem ég hef mestar áhyggjur af og sem Samtök atvinnulífsins hafa rætt í opinberri umræðu er þetta vaxandi atvinnuleysi. Enda sjáum við að atvinnurekendur eru alls ekki á þeim buxunum að ráða nýtt fólk. Við þeirri stöðu þarf að bregðast með einum eða öðrum hætti. Það er í eðli starfs Samtaka atvinnulífsins að við erum á hverjum degi og hverri viku að vinna hugmyndir og útfærslur með stjórnvöldum hverju sinni. En núna segjum við að við þurfum líka að horfa lengra. Við þurfum að horfa út úr kófinu til þess að tryggja að það hagkerfi sem við byggjum upp eftir að þessu ömurlega ástandið lýkur, að við séum örugglega að toga það í rétta átt. Það er tilgangurinn með þessu,“ segir Halldór Benjamín.

Á að verða aðalmálið í komandi kosningum
 

SA bendir réttilega á að hallinn á ríkissjóði stefni í um 900 milljarða króna. Óttast samtökin þá að gripið verði til skattahækkana til að rétta við efnahaginn?

Halldór Benjamín segir að það séu tvö meginsjónarmið sem takist á í vestrænni hagstjórn og pólitík um þessar mundir. „Annars vegar það sjónarmið að, sem ég er ósammála, að leiðin út úr kreppunni sé aukin skattlagning, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Hin leiðin sem ég tel að sé rétta leiðin er sú að við verðum að vaxa út úr þessu. Það er að segja hagkerfið verður að stækka. Það eru þær grunntillögur sem við leggjum til. Hvernig við getum stuðlað að því að fyrirtækin, þegar þau ná fyrri styrk á nýjan leik, geti haldið áfram sókn sinni. Skilað auknum skatttekjum inn í samfélagið. Við leysum ekki vandann með aukinni skattlagningu. Við verðum að finna leiðir til að vaxa og vaxa á arðbæran máta. Það á að vera í mínum huga mál málanna í komandi kosningum,“ segir Halldór Benjamín.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV