Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skera niður á sjöunda hundrað fjár í Skagafirði í dag

05.11.2020 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Á sjöunda hundrað fjár verður fargað á bænum Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði í dag. Frá því að smitið var greint hefur töluverð óvissa ríkt um um hvernig förgun yrði háttað

Skorið niður á þremur öðrum bæjum

Þann 22 október var riða staðfest á Stóru-Ökrum 1 og ljóst að skera þyrfti niður allt fé niður. Tæpri viku síðar var svo tilkynnt um smit á þremur öðrum bæjum í Skagafirði og tilkynnt að lóga þyrfti um 2.400 fjár. Bæjirnir þrír, Syðri Hofdalir, Grænamýri og Hof í Hjaltadal eru allir í sama smitvarnarhólfi og Stóru Akrar.

Dýralæknir óskaði eftir leiðbeiningum

Í kjölfarið óskaði Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir eftir leiðbeiningum frá yfirvöldum um hvernig hátta ætti förgun. Þann 28. október skilaði Umhverfisstofnun svo mati vegna málsins þar sem nefndir voru tveir kostir. Annars vegar að brenna hræin í brennslustöð Kölku í Reykjanesbæ. Hins vegar ætti að kanna möguleika á að urða hræin á urðunarstað Norðurár í Stekkjavík. Gunnar Sigurðsson, bóndi á Stóru Ökrum reiknar með að féið verði bæði brennt og urðað. 

Sjá einnig: Vill ekki leggja það á bændur að skera oft niður

„Allt gert í einu“

„Það er bara öllu lógað í dag. Allt fullorðna féð fer í brennslu að ég best veit en restin væntanlega grafin, ég veit það bara ekki. Umhverfisstofnun er með þetta á sinni könnu. En þetta verður allt gert í einu,“ segir Gunnar.

Nú hefur verið mikil óvissa um hvernig þessu skyldi háttað, ertu sáttur við þessa niðurstöðu?

„Ég svo sem skipti mér nákvæmlega ekki neitt af því hvernig þessu er fargað. Það er líka ekki á mínu færi.“