Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segja óvissuna það versta við bið eftir hjúkrunarrými

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum lengdust um 150% á árunum 2011 til 2019. Hjón á Húsavík segja ósanngjarnt að þurfa að bíða eftir því að komast í hjúkrunarrými en óvissan sé það versta við biðina. Dóttir þeirra segir að biðin geti tekið á aðstandendur.

Biðlistar eftir varanlegu hjúkrunarrými hafa lengst undanfarin ár. Ein af ástæðunum er hækkandi aldur þjóðarinnar.  Í byrjun árs 2011 biðu að meðaltali 158. Um síðustu áramót voru þeir 395. Það er 150% aukning.

Á þessum tíma hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um 91 í heildina, því yfirleitt hafa ný rými leist önnur eldri af hólmi.  Þá hefur legurýmum á heilbrigðisstofnunum fækkað.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Tæplega 700 daga bið á Húsavík

Markmið stjórnvalda er að biðtími fari ekki yfir 90 daga. Það hefur ekki gengið eftir. Í ársbyrjun 2011 var bið eftir plássi að meðaltali 65 dagar en 132 í lok árs 2019.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Biðtími eftir hjúkrunarrými

Biðin er einna lengst á Norðurlandi og Vestfjörðum, 168 dagar. Landlæknir segir að miðgildi biðtíma gefa betri sýn. Samkvæmt því er biðin lengst á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum. Svo getur staðan verið misjöfn innan hvers landshluta. Á meðan það er engin bið eftir hjúkrunarrými á Skagaströnd getur hún verið allt að 700 dagar á Húsavík.

Biðtími eftir hjúkrunarrými árið 2019
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Biðtími eftir hjúkrunarrými árið 2019 eftir landshlutum

Óvissan versti hlutinn 

Þorgerður Kjartansdóttir og Gunnar Þórólfsson fluttu nýlega á hjúkrunarheimilið Hvamm á Húsavík. Þorgerður veiktist alvarlega 2017. Eftir sjúkrahúslegu hugsaði Gunnar um hana heima með hjálp fjölskyldunnar. Í fyrravetur veiktist hann líka. Þá tók við bið eftir hjúkrunarrými sem þau segja að hafi litast af óvissu og það sé kannski það versta. Óvissan um hvort maður fái pláss eða ekki.

Slítandi fyrir aðstandendur

Þau eru sammála því að biðin sé ósanngjörn eftir að hafa staðið sína plikt gagnvart samfélaginu en Gunnar segir lítið við því að gera, það sé algengt að fólk þurfi að bíða. Kristbjörg Gunnarsdóttir, dóttir hjónanna segir að þau hafi fengið góða þjónustu heima en biðin reyni á aðstandendur. „Ég er til dæmis ekki mikið í rónni heima og er alltaf tilbúin til taks að svara kalli. Ég sé ekkert eftir mér í það en auðvitað slítur þetta manni og maður verður stundum pirraður og þreyttur, það er ekki hægt að neita því.“ segir hún. 

Hjónin deila ekki herbergi og finnst það skrítið eftir meira en 50 ára hjónaband og vonast til að fá bráðlega íbúð. Spurð að því hvort stjórnvöld hafi brugðist þeim játar Gunnar því, sjálfsagt þeim og öðrum. Þorgerður vill ekki segja að þau hafi brugðist en telur málin þurfa að vera í fastara formi.