
Samherji auglýsir 22 milljarða yfirtökutilboð í Eimskip
Tilboðið tekur til allra bréfa sem ekki eru þegar í eigu Samherja Holding ehf. eða Eimskipafélagsins sjálfs. Útgefnir hlutir í félaginu eru alls 187 milljónir, þar af á Samherji 51,15 milljónir og Eimskip sjálft um 6,13 milljónir. Bréf í annarra eigu eru um 129,72 milljónir talsins og heildartilboð Samherja hljóðar því upp á 22,7 milljarða króna.
Fengu undanþágu frá yfirtökuskyldu í vor
Samherji keypti 550 þúsund hluti í Eimskipi 21. október og fór þá yfir 30 prósenta mörkin sem mynda yfirtökuskyldu í skráðum félögum. Það gerðist raunar líka í mars síðastliðnum en þá veitti Fjármálaeftirlitið félaginu undanþágu frá yfirtökuskyldu vegna þeirrar óvissu sem ríkti á mörkuðum af völdum kórónuveirufaraldursins.
Í auglýsingu Samherja í dag segir að tilboðsverðið, 175 krónur á hlut, sé jafnhátt og hæsta verð sem Samherji hefur greitt fyrir hluti í Eimskipi undanfarið hálft ár og jafnframt hærra en dagslokagengi hluta í Eimskip á síðasta viðskiptadegi áður en að tilboðsskylda myndaðist. Þá sé það hærra en það verð sem ráðgert hafi verið að bjóða hluthöfum í vor, áður en undanþágan fékkst frá Fjármálaeftirlitinu.
„Vel til þess fallið“ að vera áfram skráð á markað
Eimskip er í meirihlutaeigu lífeyrissjóða og í auglýsingu Samherja segir að félagið sé „vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og stjórnendur Samherja Holding binda vonir við að eiga áfram gott samstarf við aðra hluthafa Eimskips“.