Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ótækt að tekjur bakvarða skerði ellilífeyrisgreiðslur

Mynd með færslu
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landsambands eldri borgara.  Mynd: Lögreglan
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir ótækt að tekjur vegna starfa í bakvarðasveitum heilbrigðis- og menntakerfisins skerði ellilífeyri, sérstaklega í ljósi ákvörðunar Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að tryggja að tekjur bakvarða skerði ekki námslán.

Telur eðlilegt að félags- og barnamálaráðherra skoði undanþágur

„Þegar fólk er í vinnu orðið 67 ára og farið að taka eitthvað úr almannatryggingum, þá er frítekjumark. Og ef starfsmaður er kominn upp í frítekjumark en það er enn þörf fyrir starfsmanninn, þá finnst okkur eðlilegt að það eigi að gefa undanþágu, ef það á að gefa undanþágu gagnvart menntasjóði námsmanna,“ segir Þórunn í samtali við fréttastofu.

Hún segist telja að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, þurfi að íhuga að tryggja eldra fólki sömu möguleika og námsmönnum á því að starfa í bakvarðasveitum. 

„Ég meira að segja benti henni Lilju á að þetta myndi draga dilk á eftir sér. Það væru ýmsir sem sæju að þarna væru göt í kerfinu,“ segir hún. 

Breyttu úthlutunarreglum eftir viðtal við bakvörð

Menntasjóður námsmanna breytti nýverið úthlutunarreglum til að tryggja að tekjur bakvarða í námi skertu ekki námslán þeirra. Almennt gildir að 45 prósent af tekjum námsmanna umfram frítekjumark, sem er 1.364.000 krónur á ári, koma til frádráttar námsláni. Fréttastofa tók viðtal við Ástu Kristínu Marteinsdóttur um miðjan október, menntaðan sjúkraliða í laganámi, sem sagði að við henni blöstu miklar skerðingar á námslánum vegna þeirra tekna sem hún hefði aflað sem bakvörður á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

Lilja Alfreðsdóttir sagði í viðtali daginn eftir að mál Ástu yrði tekið til endurskoðunar og að tekið yrði tillit til fólks í hennar stöðu. Bakvarðasveitin hefði gegnt mikilvægu hlutverki og þess vegna væri mikilvægt að stjórnvöld sendu þau skilaboð að þau kynnu að meta það sem bakvarðasveitin hefði lagt á sig og allt íslenska heilbrigðiskerfið.

Aðrir námsmenn innan heilbrigðis- og menntakerfisins fái ekki undanþágu

Þá sagði Lárus Sigurður Lárusson, fráfarandi formaður stjórnar Menntasjóðs námsmanna, í samtali við fréttastofu í kjölfarið að ekki hefði verið skoðað að veita undanþágur fyrir fleiri starfsmenn innan heilbrigðis- og menntakerfisins heldur en bakverði. Síðustu mánuði hefur starfsfólk á Landspítalanum gjarnan unnið aukna yfirvinnu eða í breyttu starfshlutfalli vegna álags tengdu faraldrinum. Þá hafa einhverjir verið ráðnir beint til starfa á þeim deildum sem sinna COVID-19 sjúklingum, og teljast því ekki hluti af bakvarðasveitinni.