Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Metfjöldi umsókna um styrki til þýðinga á erlend mál

Íslenskar bækur í þýðingum.
 Mynd: Islit

Metfjöldi umsókna um styrki til þýðinga á erlend mál

05.11.2020 - 13:17

Höfundar

Á árinu 2020 bárust 147 umsóknir til þýðinga íslenskra verka á erlend mál. Samkvæmt tilkynningu frá Miðstöð íslenskra bókmennta hafa umsóknirnar aldrei verið fleiri. Mestur er áhuginn á bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið.

Mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum erlendis eins og sjá má á miklum fjölda umsókna um þýðingastyrki til Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem veitir styrki til 111 þýðinga úr íslensku á 28 tungumál. 147 umsóknir bárust á árinu öllu og er þetta metfjöldi umsókna um styrki til erlendra þýðinga.

Á vef  Miðstöðvar íslenskra bókmennta segir að aukninguna megi að hluta til rekja til norræns átaks sem blásið var til í kjölfar heimsfaraldursins en einnig megi almennt greina meiri áhuga á íslenskum bókmenntum erlendis á síðustu misserum.

Stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutaði styrkjum til þýðinga íslenskra verka á erlend mál fyrir tæpar 24 milljónir króna árið 2020. Umsóknir voru 147 talsins, þar af 31 til þýðinga á norræn mál. Veittir voru styrkir til 111 þýðinga á 28 tungumál, flestir til þýðinga á dönsku (13), ensku (9), þýsku (8) og frönsku (7).

Bókin sem flestir sóttu um þýðingastyrk fyrir er Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Á árinu voru veittir 14 þýðingastyrkir vegna bókarinnar, svo bráðlega verður hún aðgengileg á arabísku, dönsku, eistnesku, finnsku, frönsku, ítölsku, kóresku, króatísku, norsku, pólsku, sænsku, spænsku, tékknesku og þýsku en hún hefur verið þýdd á rúmlega 20 tungumál.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókamessa með breyttu sniði – viðburði aflýst í Hörpu

Bókmenntir

Nýræktarstyrkir veittir nýjum höfundum

Bókmenntir

Þreföldun þýðinga úr íslensku á 10 árum