Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Leifar skordýreiturs í nærri 10% bandarísks spínats

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Leifar af skordýraeitri yfir hámarksmörkum fundust í nærri 10% af innfluttu bandarísku spínati. Þetta kemur fram í ársskýrslu MAST fyrir árið 2019 sem greint er frá í Bændablaðinu.

Fram kemur að ástæða þess sé yfirleitt sú að reglur um notkun svokallaðra varnarefni eru mildari í Bandaríkjunum, Asíu eða Afríku en innan EES.

Engar leifar varnarefna fundust í íslensku grænmeti en leifar af ýmsum efnum á borð við skordýraeitur, illgresiseyði, sveppalyfjum og stýriefnum fundust í 4,7% innfluttra ávaxta.

Haft er eftir Gunnlaugi Karlssyni framkvæmastjóra Sölufélags garðyrkjumanna að ekki komi á óvart að engar leifar varnarefna finnist í íslensku grænmeti.

Hann þakkar það helst litlu álagi af völdum meindýra og aðgangi að hreinu vatni til vökvunar. Gunnlaugur segir mikilvægt að neytendur fái greinargóðar upplýsingar um uppruna grænmetis og ávaxta en misbrestur hafi verið á því.

Í Bændablaðinu eru talin upp blæjuber, kíví, stjörnualdin, klementínur og appelsínur. MAST skipuleggur sýnatökur í innfluttum matjurtum og innlendum en Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefur eftirlit með frumframleiðslu, innflutningi og dreifingu.

Sömuleiðis eru sýnatökur og viðbrögð á könnu Heilbrigðiseftirlitsins. Dreifing á vörum er stöðvuð þegar svo ber til að efni af áðurgreindu tagi finnast í grænmæti eða ávöxtum.

Framleiðandi eða innflytjandi fær kost á að staðfesta niðurstöðuna með nýju sýni og sé niðurstaðan staðfest er birgðum fargað. Í kjölfarið eru vörur sem mögulega geti valdið skaða innkallaðar séu líkur á því að þær séu enn í fórum neytenda.