Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Kannski munar ekki nema þúsund atkvæðum“

Mynd með færslu
 Mynd: Rebecca Mitchell
Rebecca Mitchell, nýkjörinn þingmaður á ríkisþing Georgíu fyrir Demókrataflokkinn, segir ljóst að niðurstaða forsetakosninganna gæti orðið mjög tæp í ríkinu og að hugsanlega verði munurinn ekki nema þúsund atkvæði. Georgía hefur ekki kosið frambjóðanda Demókrata frá árinu 1992.

Rebecca býr ásamt eiginmanni sínum, Ými Vigfússyni, og fjórum börnum í Snellville, rétt fyrir utan Atlanta í Georgíu. Hún bauð sig fram fyrir hönd Snellville-svæðisins til ríkisþings Georgíu í fyrsta sinn nú í haust og var kjörin á þing samhliða forsetakosningunum. Rebecca er sérfræðingur í lýðheilsufræðum með doktorspróf í útbreiðslu smitsjúkdóma og Ýmir er tölvunarfræðingur. Þau eru bæði aðstoðarprófessorar við Emory-háskólann í Atlanta.

Öflug herferð til að hvetja fólk til að kjósa skilaði árangri

„Það er mikill stuðningur við Demókrata í Georgíu, en kjörsókn hefur almennt ekki verið nógu góð,“ segir hún og bætir við að nú hafi flokkurinn ráðist í öfluga herferð til að hvetja fólk til að kjósa. „Það virðist hafa virkað, og við viljum breytingar. Ég held að það útskýri þessa breytingu. En það þarf margt að koma saman. Svo er líka auðvitað skýr vilji til þess að losna við Donald Trump úr forsetastólnum,“ segir Rebecca. 

Mynd: RÚV / RÚV

Rebecca segist mjög bjartsýn á að Demókratar sigri í ríkinu. „Mér finnst það mjög líklegt. Það gæti svosem alltaf endað rautt en í ljósi þeirra atkvæða sem á eftir að telja [utankjörfundaratkvæði], þá þyrftu að bætast í hópinn einhver atkvæði sem ekki hefur verið gert ráð fyrir, til þess að Trump vinni. En svo þurfum við að muna að við þurfum ekki endilega að sigra í ríkinu. Það væri bara mjög gott ef bæði Georgía og Pennsylvanía myndu snúast til Demókrata, því það aftrar því að forsetinn tali um að það eigi að stöðva talningu. Því jafnvel þótt hann myndi stöðva talninguna núna, þá tapar hann samt,“ segir hún. 

Rebecca segir utankjörfundaratkvæðin augljóslega Demókrötum í hag, sennilega fari að minnsta kosti tvö þriðju þeirra til Demókrata. 

Mynd: RÚV / RÚV

En af hverju tekur svo langan tíma að telja atkvæðin?

Rebecca útskýrir að talningin taki ekki síst langan tíma vegna þess hversu flókin framkvæmdin er. Kjósandi skrifi nafn sitt á stórt umslag og inni í því sé annað lítið umslag með kjörseðli. Við talningu þurfi að samræma nöfnin og skanna kjörseðilinn. Þá hafi ekki verið heimilt að hefja talningu á utankjörfundaratkvæðum fyrr en rétt fyrir kosningar. 

Mynd: RÚV / RÚV

Hvert einasta atkvæði gæti skipt máli

Hún segir betra að talningin taki langan tíma og að það sé hægt að treysta því að hún sé nákvæm. „Kannski munar ekki nema þúsund atkvæðum, sumir segja að munurinn gæti orðið 50 atkvæði. Þess vegna verðum við að geta treyst því að talningin sé rétt,“ segir hún. 

Mynd: RÚV / RÚV

Hennar sýsla, sem nær yfir Atlanta, hefur breyst úr því að vera „mjög rauð, yfir í mjög bláa,“ eins og hún orðar það. Þar er fjöldi nýrra frambjóðenda á ríkisstiginu sem telja sig geta náð kjöri og haft áhrif. Hún útskýrir að sú sé alls ekki staðan alls staðar í ríkinu: „Vinkona mín kom að norðan til að hjálpa mér á kjördag. Hún sagði að þar væru mun fleiri skilti til stuðnings Trump. Og ég hef ekkert verið að fara þangað, enda eru mínir kjósendur hér,“ segir Rebecca. 

Rebecca og Ýmir lýsa því hvernig pólitíska myndin í sýslunni hefur breyst á síðustu 25 árum eftir því sem íbúafjöldi hefur margfaldast. Áður hafi nær einungis hvítt fólk búið þar en nú hafi mikill fjöldi fólks af ólíkum uppruna flutt þangað. Þá hafi Atlanta stækkað og rutt í burt strjálbýlu svæði. 

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég leyfi þeim ekki að ráðast á kynheilbrigðisþjónustu“

Aðspurð hvað fékk hana til að gefa kost á sér til ríkisþingsins segir Rebecca að hennar reynsla af heilbrigðiskerfinu og tryggingum, eftir að hún eignaðist barn sem þurfti á góðri heilbrigðisþjónustu að halda, hafi verið meðal þeirra þátta sem veittu henni innblástur.

Hún bendir á að í Georgíu hafi sífellt verið þjarmað meira að réttindum kvenna til þungunarrofs. Á síðasta ári hafi verið samþykkt frumvarp sem bannar þungunarrof þegar konur væru komnar sex vikur á leið og í aðdragandanum hafi það verið bannað við tuttugu vikur. „Og svo reyna þeir að taka af fólki heilbrigðistryggingar. Þetta gerist allt á ríkisstiginu. Svo ef við viljum breyta hlutunum í Georgíu, þá verðum við að beita okkur í löggjöfinni hér og tryggja okkur nýjan ríkisstjóra,“ segir hún. 

„Ég leyfi þeim ekki að brjóta niður kynheilbrigðisþjónustu. Ég veit hvernig tilfinningin er að vera komin 20 vikur á leið og fá að vita að eitthvað sé að. Og ég veit að ríkið á ekki að skipta sér af ákvörðunum fólks í þeirri stöðu. Og ég hef séð hversu mikilvægar heilbrigðistryggingar eru. Við getum ekki breytt þessu utan frá, við þurfum löggjöf sem tryggir að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu,“ segir hún. 

Mynd: RÚV / RÚV

Þurfum að breyta viðhorfi heillar þjóðar til COVID-19

Rebecca er sérfræðingur í heilbrigðisvísindum, með doktorspróf í smitsjúkdómafræðum. Aðspurð hvernig hún telji að Biden muni takast á við útbreiðslu faraldursins, verði hann næsti forseti, segir hún spurninguna frekar hvaða möguleika hann hafi. „Stjórnvöld hafa reynt að telja Bandaríkjamönnum trú um að veiran sé ekki til og að það þurfi ekki að gera neitt til að verjast smiti. Nú er allt í einu orðið viðtekið að það sé pólitísk afstaða að reyna að verjast smiti og fylgja leiðbeiningum. Og við þurfum að breyta viðhorfi heillar þjóðar. Ég held að það verði mjög erfitt,“ segir hún.

Mynd: RÚV / RÚV