Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búinn að setja upp tíu þúsund jólaljós í október

05.11.2020 - 11:45
Mynd: RÚV / RÚV
Sveitarfélög víða um land hafa í ljósi aðstæðna flýtt uppsetningu jólaskreytinga um nokkrar vikur. Akureyringur sem er búinn að setja upp tíu þúsund perur segir ekki mikið annað að gera þessa dagana en að lífga upp á tilveruna.

Hvetja fólk til að byrja að skreyta

Fjölmörg sveitarfélög hafa síðustu daga sett upp jólaljós til að lýsa upp skammdegið. Í Hafnarfirði eru ljósin þegar komin upp og í miðborg Reykjavíkur eru jólin farin að minna á sig. Börkur Ragnarsson, starfsmaður Akureyrarbæjar segir skreytingarnar vera óvenju snemma í ár. 

„Í fyrra þá byrjuðum við 11. nóvember en núna erum við meira en viku fyrr. Flestir eru byrjaðir að skreyta og kannski er það Covid, ég veit það ekki. Bara verið að reyna að létta lundina hjá fólki,” segir Börkur.

Ekki mikið annað að gera

Aðalbjörn Tryggvason, sem að eigin sögn er mikið jólabarn, tók áskorun bæjaryfirvalda. Hann segir jólin koma snemma í ár.

„Þetta er nú alveg í það fyrsta núna sko en við höfum vanalega verið að kveikja svona 15-20 nóvember. Það er svo sem ekki mikið annað að gera en að fara úr og reyna að lífga upp á tilveruna,” segir Aðalbjörn. 

Er þetta ekkert dýrt?

„Jú þetta er nú alveg búið að taka mörg ár að safna þessu þetta eru orðnar fleiri þúsund perur. Þetta veltur á einhverjum ofsa mörgum peningum.”