Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Átjánda andlátið vegna COVID-19

05.11.2020 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Sjúklingur á tíræðisaldri lést af völdum COVID-19 á Landspítalanum í gær. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar með eru dauðsföllin sem rakin eru til COVID-19 á Íslandi orðin átján talsins. Þau voru tíu í fyrstu bylgjunni og eru orðin átta í þeirri þriðju.

Þórólfur fór yfir stöðuna í faraldrinum í upphafi fundar. Hann sagði að 20 af 25 sem greindust með COVID-19 í gær hefðu verið í sóttkví. Það er jákvætt sagði hann en tók fram að lítið mætti út af bregða. Helmingur þeirra smita sem greinst hafa síðustu daga hefur verið við Eyjafjörð. Enginn greindist á landamærunum í gær.

68 sjúklingar hafa verið lagðir inn á Landspítala með COVID-19 og eru þar enn. Þar af eru fjórir á gjörgæslu og tveir í öndunarvél. Þrír liggja inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri en eru ekki alvarlega veikir.

Tilslakanir eftir tvær vikur ef vel gengur

Þórólfur kvaðst vonast til þess að hægt yrði að slaka á sóttvarnaaðgerðum um 18. nóvember. Hann sagði að það yrði þó að gerast hægt og rólega.

Alma Möller landlæknir sagði að ástandið á heilbrigðisstofnunum væri ásættanlegt en að víða væri viðvarandi álag. Tveir starfsmenn Landspítala greindust með smit í gær, líkt og daginn áður.