Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allt að fjögurra mánaða bið hjá Krabbameinsfélaginu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bíða þarf allt að fjóra mánuði frá leghálskrabbameinsskimun þangað til niðurstaða fæst. Yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins segir þetta óvenjulanga bið og hún skýrist af miklu álagi við að endurskoða eldri sýni. 

Í svari Krabbameinsfélagsins við fyrirspurn Fréttastofu segir að langt sé síðan biðin hafi verið svona löng og það skýrist af miklu álagi á frumurannsóknastofu félagsins. Álagið jókst til muna þegar fregnir bárust í haust um að skimun hjá nokkrum konum hefði átt að gefa tilefni til nánari skoðunar sem ekki var gerð. Um fimm þúsund eldri sýni voru þá rannsökuð á ný. 

Í dag er staðan þannig að það getur tekið allt að átta vikur frá því kona fer í leghálsskimun þar til niðurstaða liggur fyrir. Ef frumubreytingar greinast við skimun þarf viðkomandi að fara í leghálsspeglun og vefjasýni. Bið eftir að komast í það er fjórar vikur. Loks getur svo tekið allt að þrjár vikur að fá niðurstöðu. Alls getur því biðin verið fimmtán vikur eða tæpir fjórir mánuðir.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, segist skilja að biðin geti verið konum þungbær. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að hópurinn sem um ræðir séu ekki sjúklingar með krabbamein. Skimun gangi út á að fyrirbyggja leghálskrabbamein og því séu heilbrigðir einstaklingar skimaðir. Út frá því sjónarmiði sé ekki hægt að líta svo á að mikið liggi á niðurstöðu. Um tuttugu og fimm þúsund sýni séu rannsökuð á ári en aðeins um tuttugu tilfelli leghálskrabbameins greinist árlega.

Í þeim tilvikum sem gera þurfi leghálsspeglun sé kannað hvort konur séu með slæmar frumubreytingar. Þær breytingar séu hins vegar ekki krabbamein heldur forstig krabbameins. Ef það er niðurstaða speglunar þá sé gerður einfaldur keiluskurður sem feli í sér lítið inngrip.