Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Við erum að senda Íslending úr landi”

04.11.2020 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚv
Útlendingalögin sem samþykkt voru á Alþingi 2016 hafa ekki náð tilgangi sínum því framkvæmdavaldið vill ekki fylgja þeim eftir, sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag. Hann gagnrýndi hvernig staðið er að málum senegalskrar fjölskyldu sem vísað verður úr landi, þar á meðal stúlkum sem eru fæddar hérlendis. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að lagasetningin 2016 hefði verið mikið framfaraskref og að ráðuneyti framfylgdu vilja Alþingis.

 

„Við erum að senda Íslending úr landi, einstakling sem fæddist hér og hefur aldrei verið annars staðar,” sagði Helgi Hrafn í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hann vísaði þar til máls senegalskrar fjölskyldu sem senda á úr landi. Hann sagði að nú ætti að flytja úr landi barn sem hefði búið hér alla ævi og hvergi annars staðar verið. Ástæðan væri sú að foreldrarnir hafa ekki dvalarleyfi og því sé öll fjölskyldan send úr landi.

Helgi Hrafn spurði hvort Katrín myndi beita sér fyrir að lagt yrði fram frumvarp um breytingar á löggjöf um útlendinga.

Katrín sagði að stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir því síðustu ár að stytta þá fresti sem stjórnvöld hefðu til að taka á málum. Hún sagði að breytingar á útlendingalögum 2016 hefðu verið góðar, og mikið framfaraskref á sínum tíma. Hún sagði að það væri skylda þeirra sem að samþykktinni stóðu að fara yfir hvernig löggjöfin hefur gengið eftir.

Helgi Hrafn sagði að reynslan frá 2016 sýndi að ekki væri nóg að setja háleit markmið í löggjöf ef ekki væri vilji hjá framkvæmdavaldinu að fylgja því eftir og sýna mannúð og skynsemi. 

Katrín sagði að framkvæmdavaldið fylgdi vilja löggjafarvaldsins. Hún sagðist ekki hafa orðið vör við margar tillögur um breytingar á löggjöfinni síðustu ár. Katrín sagði að í ár hefðu 60 prósent umsókna verið samþykktar, 368 einstaklingar.